
Silungsveisla hjá Jóhönnu Gísla á Seyðisfirði
Fyrir tæplega tveimur áratugum fór ég til Seyðisfjarðar á fund Jóhönnu Gísladóttur framkvæmdastjóra Markaðsstofu Austurlands og bar upp við hana hugmynd sem ég hefði gengið stutt með: Að setja upp safn um veru franskra sjómanna á Íslandi og kaffihús. Jóhanna tók afar vel í hugmyndina og ekki síst vegna þess bretti ég upp ermar og opnaði safnið Fransmenn á Íslandi sem löngu síðar varð grunnur að núverandi safni í Franska spítalanum á Fáskrúðsfirði.
— SEYÐISFJÖRÐUR – JÓHANNA GÍSLADÓTTIR – SILUNGUR —
.

Silungur á la mamma
Nýveidd bleikja, eða annar silungur
Salt
Pipar
Smjör
Niðursneidd sítróna
Uppskriftin gildir fyrir ca þriggja punda fisk:
Flakið silunginn og beinhreinsið hann. Leggið flökin í smurt eldfast mót, snúið roðinu niður, kryddið með salti og pipar. Setjið inn í 180°C heitan ofn í um 10 mínútur, jafnvel skemur. Athugið að bökunartíminn fer að sjálfsögðu eftir stærð flaksins og því mikilvægt að fylgjast með.
Berið fram með nýjum kartöflum og smjöri ásamt niðursneidddri sítrónu.

Rifsberja-klessukaka ættuð frá Svíþjóð
100 gr smjör
2 egg
2 dl. strásykur
3 dl. hveiti
½ tsk. lyftiduft
1 tsk. vanillusykur
1 plata gróft skorið hvítt súkkulaði
3 dl rauð rifsber
Bræðið smjörið og látið kólna aðeins meðan önnur hráefni eru tekin til. Blandið öllu hinu í skál og hrærið síðan saman ásamt smjörinu. Hellið deiginu í vel smurt bökunarform eða pæform, ca 25 cm í þvermál. Bakið neðarlega í 175 °C heitum ofni í 20-25 mínútur til að fá kökuna klessta. Ef þið viljið hana frekar seiga, bakast hún í 30-40 mínútur. Langbest er að bera kökuna fram volga með þeyttum rjóma.


.
— SEYÐISFJÖRÐUR – JÓHANNA GÍSLADÓTTIR – SILUNGUR —
— SILUNGSVEISLA HJÁ JÓHÖNNU GÍSLADÓTTUR —
.