Shawarma kjúklingur
Norðfirðingurinn Guðlaug Ólöf, sem flestir þekkja sem Laugu Sidda, býr í Bahrain í Persaflóanum ásamt eiginmanni sínum Mikael og tveim af börnum, Þóru Snædísi og Sebastiani Sigfúsi og svo búa tvær á Íslandi, Árnína Lena og Elva Rut. „Við fluttum til Bahrain árið 2012 þegar Iceland Express varð gjaldþrota en Mikael vann þar sem flugstjóri, við vorum svo lánsöm að stuttu seinna bauðst honum vinna sem flugstjóri hjá DHL Bahrain og við þurftum ekki að hugsa okkar tvisvar um að flytja þangað
Bahrain er yndisleg lítil eyja með 1,5 millj íbúa. Yndislegra fólk er varla hægt að hugsa sér og maturinn er guðdómlegur. Arabar elska mat og matargerð og leggja mikið upp úr góðum mat. Þeir krydda matinn mikið og er saffran í miklu uppáhaldi. Þegar kemur að mat í Bahrain þá er local traditional morgunmatur í miklu uppáhaldi ásamt kjúklinga karrý réttum.
Matur sem þú saknar frá Íslandi eða byrjar alltaf á að fá þér þegar þú kemur heim? Það verður að segjast að það er alltaf yndislegt að koma heim til Íslands og byrja á einum litlum beikon olsen í Keflavík og svo er það Beituskúrinn heima í Neskaupstað sem er með alveg frábæra sjávarrétti sem að ég mæli með. En minn uppáhalds íslenski matur er hamborgahryggur með brúnuðum kartöflum, Waldorfsalati og rabarbarasultu 🙂
— KJÚKLINGUR — NESKAUPSTAÐUR —
.
Shawarma kjúklingur
2-3 kjúklingabringur, skerið þær í tvennt til að hafa sem þynnstar og svo í mjóa rimla.
Marinering:
2-3 tsk hrein jógúrt
1/2 tsk kardimommu duft
1/2 tsk karrý
1 tsk hvítlaukur, saxaður smátt
1 tsk paprikuduft
1 tsk cumin
1 tsk kóriander
1/4 tsk múskat
1/2 – 1 tsk salt (fer allt eftir smekk, ég vil mitt bragðmikið)
2 tsk borðedik
2 tsk ólífuolía
safi úr hálfri sítrónu
Þessu öllu blandað saman og kjúklingurinn settur útí, látið standa í 2-4 tíma í kæli.
sósan (smurð á brauðið)
3 tsk hrein jógúrt
3 tsk mayones
1/2 tsk salt
1/2 tsk hvítlaukur, saxaður
Hrærið öllu saman.
Brauðið sem að ég notaði núna er tortilla en yfirleitt er það pan brauð og svo má nota pítu brauð.
Steikið kjúklinginn á pönnu, þegar hann er tilbúinn er tortilla brauðið smurt með sósunni og svo er kál, shawarma kjúklingurinn, tómatar, pickles og franskar kartöflur sett endilangt á miðjuna. ( mér finnst best að gera mínar eigin franskar úr kartöflum sem að eru velt uppúr ólifu olíu, salti, coriander og chilli pipar)
Þessu skelt á grillið í nokkrar mínútur og voila!
Þetta er hrikalega gott með rauðvíni og að hafa smá tabasco sósu með 🙂