
Sumarleg mylsnukaka með eplum og rabarbara
Ívar Helgason flutti til Akureyrar 2011 að syngja í Hárinu í Hofi. Hann grínast með að sitt hár hafi fokið á árunum á Akureyri. „Ég hef verið að sinna klassískri og rytmískri söngkennslu við Tónlistarskólann og sett upp sýningar á vegum Tónlistarskólans, áhugamannaleikhúsa og leikfélags Verkmenntaskólans. Unnið sem kennari, leikstjóri, danshöfundur, svo fátt eitt sé nefnt og um leið kynnst fullt af yndislegu fólki. Fyrir átta árum rakst ég á auglýsingu á uppboði á hrossum í Hörgárdal og til að gera langa sögu stutta, datt ég í hestamennsku hér fyrir norðan. Ég fór þangað á mótorhjólinu mínu, fækkaði hestöflunum og keypti mér mína fyrstu meri, sem hefur kennt mér mikið. Mótorfákurinn hefur aftur á móti fengið að standa síðan óhreyfður og bíður enn þann dag í dag eftir að ég vitji hans.
Einnig slysaðist ég til að kynnast íshokký sem er mjög vinsæl og sterk íþrótt hérna á Akureyri. Hef ég notið þess að æfa hana og spila í góðra vina hópi.” segir Ívar sem syngur víða fyrir norðan og veislustýrir.
.
— RABARBARI — AKUREYRI — MYLSNA — SUMARLEG —
.

Skrýtnasti matur sem þú hefur bragðað? „Bæði skrýtin og einnig mjög góð. Það var Gorganzola-súpa í smábæ, rétt fyrir utan Innsbruck, þegar við vorum að syngja íslensk þjóðlög í “Risanum”, Kristal-safni Swarofski kristalsframleiðandans. Þá voru þau með Norðurljósaþema í gangi. Lítill veitingastaður var með þessa skrýtnu súpu með Gorganzola osti og gerðum við okkur nokkrum sinnum ferð þangað til þess að gæða okkur á þessari ljúffengu ostasúpu.”


Sumarleg mylsnukaka með eplum og rabarbara
Gumsið (undir)
100 g kókospálmasykur
3-4 epli
300 – 400 g rabarbari
2 – 3 msk kartöflumjöl eða maísmjöl
Mylsnan (ofan)
100 g kókospálmasykur eða púðursykur
100 g tröllahafrar
100 g hveiti
100 g smjör við stofuhita
Vanilla og/eða kanill
(magn eftir smekk)
Rabarbarinn er soðinn með kókospálmasykri ef hann er mjög grófur eða í stórum bitum. Eplum og kartöflumjöli er blandað saman við rabarbarann og gumsinu hellt í smurt eldfast mót.
Innihaldsefnum í mylsnuna er blandað saman í hrærivél og deigið mulið yfir rabbabara- og eplagumsið.
Sett inn í 200°C ofn og bakað í 25 min eða þar til gullinbrúnt.
Ofan á er gott að strá möndlukurli eða pekanhnetum.
Berið fram með ís og/eða þeyttum rjóma og borðað með bros á vör 😊

.
— RABARBARI — AKUREYRI — MYLSNA — SUMARLEG —
.