Hótel Flatey – hinn fullkomni friður
Það er eiginlega ólýsanlegt að koma til Flateyjar á Breiðafirði, en þangað er farið með Baldri, hvort sem er frá Stykkishólmi eða Brjánslæk. Hægt er að panta hjá Sæferðum.
Því fylgir dúnmjúk vernd að dvelja á eyju í burtu frá skarkala heimsins. Kyrrðin er mögnuð. Fuglalífið er einstakt, því að hér er hvorki tófa né minkur og fuglarnir því friðsælir.
Nema krían sem kroppar í kind þegar hún vogar sér of nálægt hreiðrinu. En kindin skeytir ekkert um það, heldur bara áfram að bíta gras eins og ekkert hefði í skorist. Þegar við litum út um gluggann við morgunverðarborðið á Hótel Flatey, voru æðarungahnoðrar að baða sig í flæðarmálinu og við bókstaflega krúttuðum yfir okkur.
— HÓTEL FLATEY — SÆFERÐIR — FERÐAST UM ÍSLAND —
.
Þorpið við Grýluvog er hlýlegt, litfögru fallegu húsin sem mörg eru frá 19. öld eru smekklega endurgerð og að þeim mikil prýði. Sagan er við hvert fótmál, klaustrið, verslunin, bókhlaðan, kirkjan. Ungfrúin góða og húsið eftir Guðnýju Halldórsdóttur Laxness verður ljóslifandi í huganum. Á hótelinu er bráðskemmtileg „Símaskrá“, Flateyjarbók hin nýja, þar sem saga hvers húss er rakin ásamt helstu upplýsingum, s.s. leiðsögn um Flatey og samfélagssamningur Framfarafélagsins, en það er stórkostleg lesning.
Elínborg Hauksdóttir rekur Hótel Flatey af miklum myndarbrag. Hótelið er gert listilega upp af Minjavernd, eins og allt sem þau gera og ekki síst skapa smáatriðin töfrandi heildarmynd, fallegir munir og samræmi. Og koddarnir eru yndislegir! Tíminn stendur í stað og gleðihormón fljóta um æðar.
Veitingastofan, sem áður var samkomuhús eyjarskeggja, er opin á hverjum degi frá 12 – 21. Daglega er í boði spriklandi ferskur fiskur dagsins ásamt súpum dagsins. Einnig eru pitsur og eitt og annað góðgæti. Það er ekki allt búið enn, því að daglega er bökuð terta dagsins – eitthvað sem fleiri kaffihús mættu taka sér til fyrirmyndar. Starfsstúlkurnar, systurnar Aníta og Bryndís Bergmann, eru hinar elskulegustu gengilbeinur. Hér er allt persónulegt og ljúfmannlegt.
Súkkulaðiappelsínuterta
Terta dagsins þegar við vorum í Flatey var súkkulaðiterta með appelsínuberki og -safa. Alveg hreint ljómandi góð og Elínborg var alveg til í að deila uppskriftinni:
Súkkulaðiappelsínuterta
75 g kakó
6 msk sjóðandi vatn
4 stór egg
225 g sykur
225 g mjúkt smjör, og aðeins meira til að smyrja formið
2 msk appelsínusafi
225 g hveiti
1 tsk lyftiduft
Appelsínukaramella:
rifinn börkur af tveimur appelsínum
25 g sykur
Brúnið sykurinn á pönnu og bætið berkinum saman við
Súkkulaðikrem
300 ml rjómi
300 g dökkt súkkulaði 70%
2-3 msk mjólk
Hrærið saman kakói og vatni. Þeytið saman egg og sykur svo verði létt og ljóst. Bætið við smjöri, appelsínusafa, hveiti og lyftidufti. Látið loks appelsínukaramelluna saman við. Smyrjið tertuform með smjöri, hellið deiginu í og bakið við 20-25 mín við 175°C (munið að ofnar eru misjafnir)
Kremið: Látið allt í pott og bræðið á lágum hita. Hellið yfir kökuna ´á meðan hún er volg. Skreytið með appelsínum 🙂
— HÓTEL FLATEY — SÆFERÐIR — FERÐAST UM ÍSLAND —
.
Við ferðaþríeykið viljum gjarnan heyra frá ferðaþjónustufólki
— HÓTEL FLATEY — SÆFERÐIR — FERÐAST UM ÍSLAND —
.