Grána bistro – Íslands besti eftirréttur
Grána bistro og Gránubúð er í gamla kaupfélagshúsinu á Sauðárkróki eins og sýningin um Örlygsstaðabardaga 1238 og endurnýjunin hefur tekist sérlega vel.
Systkinin Kristinn landsliðskokkur og Sandra reka staðinn. Faðir þeirra, Jón Daníel Jónsson, rak áður Kaffi Krók, en lætur nú börnunum eftir að reka Gránu bistro og það er ekki í kot vísað að koma til þeirra, hér er allt með miklum skagfirskum sóma.
Hér hefur ekkert hráefni verið flutt yfir hálfan hnöttinn, heldur kemur það meira og minna allt „úr héraði“. Það segir til sín í eldamennskunni, því að allt bragðast ferskt og bragðmikið. Kartöflurnar koma frá Hofsstöðum, Burrata osturinn er framleiddur af Mjólkursamlaginu, grænmetið frá Laugamýri í Lýtingsstaðahreppi, lambakjötið skagfirskt, rækjur úr rækjuvinnslunni og hægt er að fá ostaplatta með Feyki, Reyki, Gretti og Mozzarella sem allir eru framleiddir á Króknum
— GRÁNA BISTRÓ — SKAGAFJÖRÐUR — FERÐAST UM ÍSLAND— Margir hafa haft samband og við viljum gjarnan heyra frá fleirum í ferðaþjónustunni.
.
Lambakebabspjót með aïoli, súrsuðum rauðlauk, paprikukremi, salthnetum. Miðausturlensk krydd gefa tóninn.
Burrata með sýrðum tómötum, basil og basilolíu. Burratan líkist mozzarella, en er mun rjómakenndari og himnesk.
Hólableikja með brokkolí, kartöflusmælki og grænmeti með rækjusósu úr rækjuvinnslunni.
Súkkulaðikaka með berjum og rjóma og bökuð ostakaka með hindberjakrami og dulce de leche (karameliseraðri mjólk). Ostakakan er besti eftirrétturinn sem við höfum fengið í ferðalaginu
— GRÁNA BISTRÓ — SKAGAFJÖRÐUR — FERÐAST UM ÍSLAND— Margir hafa haft samband og við viljum gjarnan heyra frá fleirum í ferðaþjónustunni.
.