Auglýsing
Guðlaugur þór þórðarson ráðherra ágústa johnson hreindýr kjötbollur hreindýrakjötbollur dijon
Í kjötbolluveislu hjá Ágústu og Guðlaugi Þór

Kjötbollur í eldhúsinu hjá utanríkisráðherra

Gulli (hann er svo alþýðlegur og léttur, að það er eiginlega of hátíðlegt að segja Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, en það er hann auðvitað og hér með er þeim formlegheitum lokið) er einn af öflugustu stjórnmálamönnum landsins, en færri vita að hann er hörkukokkur. Raunar er matargerð sameiginlegt áhugamál þeirra hjóna, en Ágústa í Hreyfingu er eðlilega mikil áhugakona um gott hráefni og staðgóðan, hollan mat.

.

Auglýsing

BORGARNESHREINDÝRKJÖTBOLLURDIJON

.

Borgnesingurinn Guðlaugur Þór hrærir í sósunni

Gulli er afbragðs grillari, en mig langaði til að biðja hann til að gefa leyniuppskriftina sína að kjötbollum, sem eru framúrskarandi ljúffengar og auðvitað heimilislegar í senn. Hann tók því ljúfmannlega og það verður að segjast eins og er, að hann ber sig fagmannlega að í eldhúsinu.

Kjötbollurnar eru að sjálfsögðu gerðar frá grunni úr úrvals hráefni. Hann notar hreindýrahakk, en leynitrikkið er hins vegar Dijon sinnep. Gott hráefni, einföld og pottþétt uppskrift, vel þess virði að prófa!

Hreindýrakjötbollur

Hreindýrakjötbollur

600 g hreindýrahakk
2 brauðsneiðar
1,5 dl mjólk
1 msk Worchester-sósa
1 msk „villijurtir“ frá Pottagöldrum
ca 10 einiber
2 tsk sjávarsalt
1 tsk nýmulinn pipar
Setjið brauðið í skál ásamt mjólkinni og bleytið það vel. Myljið einiberin vel í morteli. Setjið kryddin í skál og blandið saman. Bætið kjötinu við og Worchester-sósunni og hrærið vel saman. Takið brauðið upp úr mjólkinni, maukið það í litla bita og blandið saman við kjötið. Mótið kjötbollur úr blöndunni.

Það er gott að geyma bollurnar í kæli í um klukkustund áður en þær eru eldaðar eða nota hakkið á meðan það er kalt.

Hitið olíu og smjör saman á pönnu og brúnið bollurnar í 3-4 mínútur á hvorri hlið. Setjið í eldfast mót og inn í 180°C heitan ofn á meðan að þið gerið sósuna á sömu pönnu og bollurnar voru steiktar á.

Rjómasósa

2 dl hvítvín
2,5 dl rjómi
1 msk sojasósa
2 msk kálfafond eða kjúklingafond.
1 msk Worchester-sósa
2 msk sulta, t.d rifsberja
1 msk Dijon-sinnep eða honey dijon.

Hitið pönnuna og hellið hvítvíninu út á ásamt kálfakraftinum, sojasósu og Worchester. Leysið skófarnar á pönnunni upp með sleif og látið vínið malla í smá stund eða þar til að það hefur soðið niður um tæpan helming. Bætið rjómanum út á og látið malla áfram á vægum hita þar til að sósan fer að þykkna. Bætið sultunni saman við. Alveg undir lokin er sinnepið pískað saman við.

.

BORGARNESHREINDÝRKJÖTBOLLURDIJON

— HREINDÝRABOLLUR —

.