Kjötbollur í eplasósu
Eplasósa með kjötbollum hljómaði svo spennandi að þann rétt verður að prófa. Kemur skemmtilega á óvart. Í upphaflegu uppskriftinni, sem kemur frá Úkraínu, á að vera kalkúnakjöt en ég blandaði kjúklinga- og lambahakki.
🇺🇦
— ÚKRAÍNA — KJÖT — KJÖTBOLLUR — EPLI —
🇺🇦
Kjötbollur í eplasósu
500 g kjöthakk
1 egg
3 msk hveiti
3 1/2 dl vatn
1-2 brauðsneiðar, saxað smátt
2 hvítlauksrif, fínt söxuð
1 dl söxuð fersk steinselja
1 laukur
salt og pipar
olía til steikingar.
Eplasósa
2 græn epli
1-2 tsk sterkt sinnep
3 msk trönuberjasulta
1 tsk rifið engifer
Börkur af 1/2 – 1 appelsínu
safi úr einni appelsínu
1 tsk edik
1 msk tómatpuré
Bollur: Saxið laukinn smátt og léttsteikið í olíu á pönnu. Bætið saman við hakkið ásamt eggi, brauði, hvítlauk steinelju, salti og pipar. Mótið kjötbollur og steikið á pönnu. Takið til hliðar á meðan sósan er útbúin á pönnunni.
Sósa: Saxið eplin smátt setjið á pönnuna (ekki hreinsa hana eftir bollurnar), bætið restinni við. Þynnið með vatni og smakkið til með salti og pipar. Látið sjóða í nokkrar mínútur – má setja í blandara ef vill og svo aftur á pönnuna. Bætið kjötbollunum saman við og sjóðið áfram.
🇺🇦
— ÚKRAÍNA — KJÖT — KJÖTBOLLUR — EPLI —
🇺🇦