Dalatangarúgbrauðsterta
Það er ógleymanlegt að fara í Mjóafjörð og renna alla leið út á Dalatanga. Þangað er meira og minna ófært yfir veturinn, en vitagæslumaðurinn Marzibil Erlendsdóttir lætur það nú ekki á sig fá, en með henni býr dóttir hennar, Aðalheiður Elfríð Heiðarsdóttir, íslenskufræðingur.
Þær eru hressar í bragði og leiðist greinilega aldrei, þó að einangrunin sé talsverð yfir veturinn, enda er alltaf nóg að gera við veðurathuganir, border collie ræktun o.m.fl. Við vorum svo heppnir að fá að fara inn og upp í vitana, bæði gamla frá 1895, sem var raunar annar vitinn sem byggður var á Íslandi og stóra vitann, sem lýsir sjófarendum í dag. Nokkrum Frökkum þótti ekki leiðinlegt að fylgja okkur í þessa skoðunarferð, ekki síst þegar Marzibil kveikti á þokulúðrinum. Það er sko enginn smáræðis hávaði.
Ég heyrði í Marzibil í vetur, en þá sagðist hún eiga ágæta uppskrift að rúgbrauðstertu. Það var nú kannski ekki síst þess vegna sem við brugðum undir okkur betri fætinum yfir Mjóafjarðarheiði og alla leið þangað sem vegurinn endar. Og það stóð heima, rúgbrauðstertan var alveg ljómandi bragðgóð, en leynivopnið var sennilega bananar í rjómanum.
— MJÓIFJÖRÐUR — DALATANGI — RÚGBRAUÐSTERTUR — RÚGBRAUÐ — TERTUR —
.
Dalatangarúgbrauðsterta
4 eggjarauður
200 g sykur
125 g mjög fínrifið rúgbrauð, ekki mjög sætt
1 msk kakó
1 msk kartöflumjöl
1 tsk lyftiduft
4 eggjahvítur
Þeytið eggjarauður og sykur vel saman. Rúgbrauðsmylsnu, kartöflum, kakói og lyftidufti blandað saman og sett úti eggjahræruna ef það er og þykkt þá má setja smá volgt vatn útí. Þeytið eggjahvítur vel og lengi og skornar útí.
Setjið í 2 form og bakið á 180°C þangað til að kakan er til (ca 20mín). Best að hafa álpappír i formunum.
Þeytið 1/2 l rjóma og brytjið 1 banana saman við og setjið á milli botnanna ásamt 2 msk af brytjuðu súkkulaði. Setjið svolítið af þeyttum rjóma yfir og saxað súkkulaði til skrauts.
.
— MJÓIFJÖRÐUR — DALATANGI — RÚGBRAUÐSTERTUR — RÚGBRAUÐ — TERTUR —
.