Andalæri með grænpipars-kampavínsmæjó og flamberaðar fíkjur
Ef það á við einhvern að hafa sungið frá blautu barnsbeini, þá er það Hallveig Rúnarsdóttir, enda dóttir Guðfinnu Dóru Ólafsdóttur sem stjórnaði Skólakór Garðabæjar í tugi ára og öll fjölskyldan er meira og minna syngjandi alla daga. Hallveig slær ekki slöku við, enda orðin ein af okkar eftirsóttustu söngkonum. Hún kann samt líka að lifa lífinu og er þekkt fyrir að slá upp rómuðum matarveislum. Hún er hafsjór af fróðleik um mat og dugleg að prófa og betrumbæta. Hvað er þetta annars með óperusöngvara og mat?
— HALLVEIG RÚNARS — ANDAKJÖT — FÍKJUR — CROSTINI —
.
Crostini með hunangs-geitaosti, fíkjum og sykruðum pekanhnetum
Fyrir pekanhneturnar:
hálfur poki pekanhnetur
50 gr púðursykur
50 ml vatn
½ tsk kanill
½ tsk flögusalt
Bræðið saman púðursykur og vatn við vægan hita á lítilli pönnu. Þegar þetta hefur bráðnað saman og orðið að karamellu, er hnetunum ásamt kryddunum bætt út í og velt um þar til hneturnar eru þaktar í karamellunni. Athugið að ekki má hræra í hnetunum, því þá klumpast karamellan. Hitið áfram í 4-5 mínútur, og dreifið svo úr hnetunum á bökunarpappír og leyfið að kólna. Við önnur tækifæri er mjög gott að setja líka cayenne pipar saman við hneturnar, tilvalið t.d. að útbúa svona og gefa í jólagjafir!
Crostini:
Snittubrauð (ég nota súrdeigs eða ítalskt) niðursneitt
hunangs-geitaostur (eða annar mjúkur geitaostur)
nokkrar greinar ferskt timian
hunang
góð extra virgin ólífuolía
ferskar fíkjur skornar í báta
Hitið brauðið í forhituðum ofni á 200°C í um það bil 5 mínútur, eða þar til það er farið að ristast. Takið út og setjið geitaostinn á (góða slummu á hverja sneið) og aftur inn í ofn í aðrar 5 mínútur eða þar til osturinn er farinn að brúnast örlítið og orðinn mjúkur. Takið út og leyfið að kólna aðeins, setjið svo einn fíkjubát, og eina pekanhnetu á hverja snittu, dreypið svo hunangi og ólífuolíu yfir sneiðarnar og dreifið að lokum blöðunum af timianinu yfir.
Andalæri með kartöfluteningum, salati og grænpipars-kampavínsmæjó
Fyrir 4
Sósan:
100 ml mæjónes (ég nota Hellmann´s því það er hlutlaust á bragðið)
2-3 msk grænpipar í legi, fremur fínt saxaður
½ tsk hlynsíróp
tvær duglegar slettur af kampavíni (u.þ.b. 50 ml). Rósakampavín er best.
Blandið saman mæjónesi, grænpipar og hlynsírópi u.þ.b. 2-3 klst. áður en á að borða, því sósan þarf að taka sig. Rétt áður en hún er borin fram er kampavíninu blandað saman við.
1 dós andalæri
4 bökunarkartöflur skornar í 2 cm teninga
Hitið ofninn í 200° með blæstri. Látið dósina liggja í vel heitu vatni í að lágmarki korter til að bræða fituna. Opnið dósina og hellið um það bil ⅓ af fitunni í ofnskúffu. Setjið kartöfluteningana saman við feitina og saltið með flögusalti. Hrærið vel saman og setjið neðarlega í ofninn í 35-40 mínútur.
Veiðið lærin upp úr dósinni og setjið á bökunarpappír á ofnplötu. Setjið lærin inn þegar 12 mínútur eru eftir af tímanum. Ekki henda restinni af fitunni úr dósinni, hún er tilvalin til að elda upp úr, geymist vel í lokuðu íláti í ískáp eða frysti.
Salat með frönsku ívafi:
Grænt salat
1 skalottulaukur, skorinn í þunnar sneiðar og útvatnaður í 10 mínútur að lágmarki
fræ úr hálfu granatepli
hálfur poki valhnetur, gróft skornar og ristaðar á pönnu í stutta stund
Vinaigrette:
2 msk góð extra virgin ólífuolía
nokkrir dropar truffluolía ef hún er til
1 msk hvítvínsedik
1 tsk dijon sinnep
flögusalt
nýmalaður pipar
Hristið vel saman og dreypið yfir salatið rétt áður en það er borið fram.
Brenndar fíkjur með koníaki
1 dós brenndar fíkjur (fást í Melabúðinni)
50 ml koníak
setjið fíkjurnar í eldfast fat og hitið í ofni í 10 mínútur. Velgið koníakið í potti, hellið yfir fíkjurnar og kveikið í. Borið fram með vanilluís og rjóma.
— HALLVEIG RÚNARS — ANDAKJÖT — FÍKJUR — CROSTINI —
.