Glasgow – Edinborg – Skoskar matarborgir
Í vor var ég svo ljónheppinn að vinna ferð með Play til Glasgow í happdrætti í breska sendiráðinu þegar Karl konungur var settur inn í embætti. Sólrún og Steindór slógust í för með okkur og gerðu góða ferð enn betri.
Það er ekkert leiðinlegt að bragða á fjölbreyttum og bragðgóðum skoskum mat. Fékk fjölmörg ráð frá Skotlandsförum við færslu á Facebook, mjög gagnlegar uppástungur. Við lentum t.d. á hóteli í Edinborg sem óhætt er að mæla með, Kimpton Charlotte Square skv. ábendingu hennar Tinnu, vinkonu okkar á Ísafirði. Samfélagsmiðlar eru til margs gagnlegir.
Það er oft gaman að eigra um og finna sér fallega, flotta staði til að borða á, en ég hef oft rekið mig á að gott er að skoða vel á netinu með góðum fyrirvara og panta. Alltaf er hægt að afpanta ef okkur líst betur á annað. Það færir okkur nær menningunni að velja a.m.k. einn þjóðlegan stað, þó að í borgum eins og Glasgow og Edinborg megi finna líka Mexíkó, Kína, Indland, Víetnam og næstum hvað sem er, ef sá gállinn er á okkur.
Til að nefna eitthvað mætti byrja á að skoða Unalome, The Gannet, Ubiquitous Chip, Cail Bruich, Glaschu, Oran Mor í Glasgow. Edinborg býður upp á ótrúlega fjölbreytta veitingastaði, en til að segja eitthvað út í bláinn, eru t.d. Number One, The Witchery, Gardener’s Cottage, Amber, Rollo og bara óendanlega marga aðra. Við létum okkur líka reika og duttum inn á yndislega staði.
Oft er hentugt að panta tasting menu. Það getur komið dálítið við pyngjuna, en ef okkur langar að prófa marga góða staði, getur verið hentugt að fara í hádeginu og þá kostar það gjarnan aðeins helming.
Svo er ég haldinn þeirri sérvisku að panta í síðdegiste, sem er oft eins og hápunktur ferðarinnar. Við fórum á The Willow tea rooms í Glasgow og The WS Society – The Signet Library í gömlu bókasafni í Edinborg skv. ábendingu hennar Jónu Símoníu, vinkonu okkar á Ísafirði, en þar fengum við konunglegar móttökur, enda voru myndir uppi á vegg þar sem Elísabet drottning og Vilhjálmur prins voru skrýdd í hverja silkihúfuna upp af annarri fyrir athöfn í salnum.
Við ákváðum að velja eitt safn til að skoða, fyrir valinu varð Kelvingrove Art Gallery and Museum sem vel má mæla með. Húsið, sem er hið glæsilegasta, var byggt fyrir heimssýninguna í Glasgow árið 1888. Þarna eru 22 salir með allt frá náttúrufræðisal yfir í franska málaralist.
Það tekur aðeins klukkustund að fara til Edinborgar og er eiginlega skylda ef farið er til Glasgow. Þar er eins og stigið sé inn í Charles Dickens sögu, borgin sameinar margt; sögu, glæsibyggingar og 900 ára kastalann sem gnæfir yfir borginni og hefur mikið aðdráttarafl, góðan mat, kósíheit, söfn, verslanir, allt sem ferðamaður getur óskað sér – sjá neðst í færslunni.
— SKOTLAND — MATARBORGIR — GLASGOW — EDINBORG — AFTERNOON TEA — SÓLRÚN & STEINDÓR —
.
— SKOTLAND — MATARBORGIR — GLASGOW — EDINBORG — AFTERNOON TEA — SÓLRÚN & STEINDÓR —
— PLAY TIL GLASGOW —
.