Kúmensnúðar
Það er frekar æskilegt að „poppa” aðeins upp sumar gamlar uppskriftir. Bæði er úrval hráefna til baksturs meiri og við erum líka upplýstari um hvað er æskilegt og hvað ekki. Þannig má oft minnka sykurmagn um amk. helming, blanda saman hveiti og spelti.
Á mínum uppvaxtarárum voru kúmensnúðar reglulega bakaðir og kláruðust held ég alltaf áður en dagurinn var allur. Hef mun minna af sykri í þeim en var notað í gamla daga.
Hélt í mörg ár að það væri aðeins fyrir framúrskarandi bökunarfólk að handleika gerdeig. Oft var ég stressaður yfir að vatnið væri of kalt eða of heitt og fleira. En svo er gerbakstur bæði auðveldur og skemmtilegur. Maður þjálfast upp í þessu eins og öðru. Hættið öllum afsökunum og bakið og bakið 😉
— SNÚÐAKAKA — KÚMEN — GERBAKSTURSVANDAMÁL —
.
Kúmensnúðar
1 1/2 kg hveiti
2 – 3 msk kúmen
ca 4 bollar vatn um 37°
2 msk matarolía
1 dl. ab mjólk
2 tsk sykur
2 tsk salt
2 msk ger
200 g smjör(líki) (við stofuhita)
3-4 msk kanilsykur
Blandið saman vatni, matarolíu, ab mjólk, sykri, salti og geri. Setjið hveiti og kúmen í hrærivélaskál, bætið gerblöndunni saman við og hrærið saman. Látið deigið lyfta sér góða stund.
Fletjið út, smyrjið smjörinu/smjörlíkinu á, stráið kanilsykrinum yfir og rúllið upp. Skerið í ca 3 cm sneiðar, raðið á bökunarpappír í ofnskúffu og láið lyfta sér aftur í amk klst. Bakið í um 20 mín við 180°C
.
— SNÚÐAKAKA — KÚMEN — GERBAKSTURSVANDAMÁL —
.