Auglýsing
Marengsrúlluterta með myntukremi – Þjóðlegt með kaffinu rúlluterta möndluflögur jarðarber Jóna Símonía Bjarnadóttir og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir gefa út bækurnar Þjóðlegt með kaffinu og Þjóðlegar hnallþórur.
Marengsrúlluterta með myntukremi

Marengsrúlluterta með myntukremi

Jóna Símonía Bjarnadóttir og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir gefa út bækurnar Þjóðlegt með kaffinu og Þjóðlegar hnallþórur. Þær halda einnig úti síðu á fasbókarsíðunni Þjóðlegt með kaffinu. Þær eru báðar sagnfræðingar þannig að áhuginn á matargerð fyrri tíma á sér fræðilegan bakgrunn. Hugmyndin að bókunum kviknaði fyrir nokkrum árum þegar þær voru að velta fyrir sér hvað væri hægt að selja erlendum ferðamönnum sem væri bæði létt og fyrirferðarlítið í farangri.

Að þeirra sögn fengu bækurnar strax góðar viðtökur og seljast allvel. Fleiri bækur eru í farvatninu en það er helst tímaskortur sem tefur útgáfu þeirra enda eru þær stöllur í fullri vinnu en báðar starfa þær í Safnahúsinu á Ísafirði þar sem Jóna Símonía er forstöðumaður en Guðfinna starfsmaður skjala- og ljósmyndasafns. Undanfarin sumur hafa þær einnig rekið kaffihús í gamla samkomuhúsinu í Ögri við Ísafjarðardjúp undir merki Þjóðlegs með kaffinu og munu einnig hafa opið þar í sumar.

#2017Gestabloggari24/52ÍSAFJÖRÐURMARENGS — MYNTAÞJÓÐLEGTÍSLENSKTFASBÓKJÓNA SÍMONÍAGUÐFINNA HREIÐARSD

.

Jóna Símonía Bjarnadóttir og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir Ísafjörður ögur gefa út bækurnar Þjóðlegt með kaffinu og Þjóðlegar hnallþórur
Guðfinna og Jóna Símonía á tröppunum á Safnahúsinu á Ísafirði þar sem þær vinna

Marengsrúlluterta með myntukremi

Marengsbotn:

5 eggjahvítur

275 gr sykur

50 gr möndluflögur

Þeytið eggjahvíturnar alveg stífar og bætið svo sykrinum smátt og smátt saman við uns deigið verður þykk og gljáandi. Smyrjið því á bökunarpappír, u.þ.b. 35 x 23 cm eða þannig að það passi á bökunarplötu. Stráið möndluflögunum yfir og bakið við 200°C í 10 mínútur, lækkið þá hitann í 160°C og bakið í 15 mínútur til viðbótar. Takið plötuna úr ofninum og hvolfið kökunni á bökunarpappír þannig að hliðin með möndlunum snúið niður. Látið kólna.

Fylling:

250 gr hvítt súkkulaði, brætt

250 ml rjómi

1 eggjahvíta

1 tsk piparmintudropar

Rjómi og eggjahvíta þeytt saman þar til rjóminn er stífur, bætið dropunum við í lokin. Kælið súkkulaðið aðeins og blandið því svo saman við rjómann með sleif, gætið þess að það blandist vel saman við án þess þó að þeyta. Setjið blönduna í kæli svo hún stífni aðeins.

Setjið fyllinguna ofan á marengsbotninn og rúllið upp. Gott er að geyma kökuna í kæli í smá stund svo fyllingin nái að stífna alveg. Skreytið kökuna, t.d. með jarðaberjum og mintu og stráið smá flórsykri yfir í lokin.

Í staðinn fyrir myntukremið má setja þeyttan rjóma með ávöxtum eða berjum, t.d. bláberjum.

🇮🇸

#2017Gestabloggari24/52ÍSAFJÖRÐURMARENGS — MYNTAÞJÓÐLEGTÍSLENSKTFASBÓK

— MARENGSRÚLLUTERTA MEÐ MYNTUKREMI —

🇮🇸

Auglýsing