Áfram upp í mót eða voru það áramót?

Áfram upp í mót eða voru það áramót? 

Albert minn kæri vinur, bað mig að skrifa stuttan pistil út frá mínu eigin brjósti/hjarta, sem sagt ekki sem Beta næringarfræðingur heldur pistil sem væri á persónulegri nótum og fjallaði um það sem í mínum huga stæði upp úr á árinu 2018. Nú þegar flugeldarykið er að setjast og nýtt ár rétt byrjað að renna af stað, langar mig að gera upp árið 2018. Það var árið þegar ég hélt áfram lífsgöngunni upp í mót og endaði með alveg hreint yndislegum áramótum. 

Í byrjun árs 2018 átti ég mér tvö markmið, það að árið yrði gott og að ég myndi verja tíma mínum meira erlendis. Örlaganornirnar voru mér aftur á móti bara algjörlega ósammála og teymdu mig þess í stað í aldeilis óvænta rússibanareið sem mig langaði hreint ekkert að fara í. En þannig er lífið og örlögunum stjórnar maður ekki alltaf sjálfur þó maður reyni gjarnan af öllu mætti að hafa fullkomna stjórn á öllu. Satt best að segja leið mér eins og ég hefði fram að þessu verið á bara nokkuð góðri siglingu. En svo hefði allt í einu lægt, ég ein í bátnum og núna stæði ég allt í einu frammi fyrir því að þurfta að staldra við til að ná áttum, svona líkt og ég væri að bíða af mér storminn. Spurningin sem ég stóð frammi fyrir var þessi; hvenær er maður í raun nógu hugrakkur og tilbúinn til að setja upp seglin og sigla af stað út í óvissuna? 

Þessi kaflaskipti í mínu lífi hófust í raun árið 2016, þegar ég hafði hrasað um lífið, skilið, syrgt, elskað aftur og misst aftur. Þá var ég þess fullviss að ég myndi aldrei finna aftur leiðina að ástinni eða öðru sem ég taldi mig mögulega eiga skilið. Það var fyrst þegar ég var stödd mitt í nær fullkomnu vonleysi og árið 2017 allt liðið, að ég gafst upp, sleppti tökunum og sigldi af stað út í óvissuna. Ég var svo heppin að mig skolaði á land vestur á Flateyri. Þar dvaldi ég í nokkra mánuði um sumarið við að aðstoða vini mína sem eiga þar og reka veitingastaðinn Vagninn. Þó ég hefði varla eldað mat að ráði í 2 ár fannst mér það alveg hreint frábær hugmynd að taka að mér að sjá um eldhúsið á Vagninum og búa til matseðil fyrir ferða- og heimamenn þá um sumarið. Ekki eina mínútu efaðist ég um eigið ágæti (ok, ég efaðist smá).  Í leiðinni kynntist dásamlegu fólki sem ég bæði vann með og eyddi með öllum mínum frítíma. 

Ég bauð líka í 50 ára afmælið mitt á árinu og ákvað að halda upp á afmælið á Flateyri. Jebb, bjartsýn að einhver myndi mæta, en bauð til vonar og vara nýju vinunum líka. Þegar til kom mættu yfir 100 manns í afmælið, bæði gamlir og nýir vinir og fjölskyldan og saman áttum við alveg hreint ógleymalega helgi með ævintýralegum minningum sem munu klárlega lifa í hjörtum okkar alla tíð. 

Hugrökk? Já líklega. Augnablikið þegar ég svo lokst ákvað að sigra endanlega óttann og hræðsluna sem hafði tekið sér bólfestu í sálartetrinu, var þegar ég stóð á bryggjunni í Holti í Önundarfirði og ég lét mig gossa nokkra metra niður í sjó, þakklát fyrir að yndislegar konur gáfu mér sjósund í afmælisgjöf. Sú gjöf reyndist hin besta þerapía. Ég, sem hef alltaf verið lofthrædd og nánast þori ekki upp á stól nema að hringja á slökkvilið til að ná mér aftur niður, þetta gat ég! Mómentið þegar ég tók tilhlaupið fram af bryggjunni, öskraði ég og grét en um leið fann ég loksins frelsið, þ.e. frelsið til að þora og lifa til fulls. Þarna á botni Önundarfjarðar skildi ég eftir vonleysi, ótta og eftirsjá sem ég ætla aldrei aftur að taka á móti. 

Það gerðist líka fullt fullt fullt gott og rétt annað á árinu. Ég var t.d. svo heppin að fá Albert minn með mér í lið á nýliðnu ári. Eftir að hafa verið lagt höfuð saman í bleyti í næringarfræðilegu ráðabruggi, byrjuðum við að halda fyrirlestra saman og í Alberti hef ég eignaðist vin sem reynist mér góður ráðgjafi um lífið. Við Albert erum sammála um að það að takast á við lífið með góðan lífsstíl í fartestinu, er eins og vera vel nestaður í fjallgöngu. 

Á árinu átti ég líka yndislegar stundir með börnunum mínum, fjölskyldu og vinum. Fékk að kynnast stúlkubarni sem fæddist í janúar og stal svo gjörsamlega hjarta mínu og ég geri allt til að ná ömmutitlinum og hún kalli mig ömmu einn daginn. Þrátt fyrir alla þessa heppni og gæfu þarf maður samt að finna sinn sálarfrið og kraft til að lífið raðist rétt og tilfinningin “að lifa” nái inn að kjarna sálarinnar. 

Augnablikið þegar ég sat í sumarnóttinni í lopapeysu og gúmmístígvélum á Flateyri, grátandi úr hlátri yfir klárlega einhverju fyndnu sem ég man ekki einu sinni lengur hvað var; það var augnablikið þegar ég vissi að ég væri í lagi og að lífið yrði líka í lagi. 

Svo er það stundum eins og það vanti eitt púsl í lífið og maður nær ekki að klára dæmið nema að finna þetta déskotans eina púsl sem vantar til að hægt sé að segja „ahah, komið!“. Ég vona að ég hætti aldrei að púsla lífinu saman því það er svo undurfagurt að vita ekki alltaf nákvæmlega hver útkoman verður. Á sama tíma er ég fegin að ég náði að finna síðasta púslið til að ljúka árinu 2018 á fullkominn hátt. Það púsl varð til þess að ég lauk árinu, umvafin gleði og ást. Klukkan 12 á Gamlársdagskvöld og nokkrar mínútur inn í nýja árið 2019, stóð ég upp við Hallgrímskirkju, hlustaði og horfði á flugeldabrjálæðið og kirkjuklukkurnar í kappi hvert við annað um leið og ég kyssti dásamlegan mann sem ég var svo heppin að kynnast á lokametrum ársins. Ef ég, og við saman, náum að púsla þessu öllu rétt, þá verður útkoman góð. Að hafa væntingar og vona að allt fari vel er mikilvægt. Það er ekkert víst að það klikki, eins og minn fyrrverandi maki sagði svo oft, og gott að hafa hann hér með í lokasetningu þessa uppgjörs. Það er nefnilega sannarlega þess virði að lifa og njóta af öllu hjarta. Og ef eitthvað gengur ekki upp, þá er bara að standa upp, dusta af sér rykið og halda áfram! Umfram allt; ekki gera ekki neitt, lífið er breytingum háð. Fyrir mig voru ævintýrin sem stóðu upp úr á árinu 2018 tíminn á Flateyri og skrefið sem ég tók til að þora að elska aftur. 

Lífið er núna. 

Með kærleikskveðju, Elísabet Reynisdóttir 

Kristborg Bóel Steindórsdóttir, vinkona og frænka tók myndirnar

 

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.