Bláberjamöffins
Bjarneyju Ingibjörgu á Ísafirði er ekki fisjað saman þegar kemur að bakstri og eldamennsku. Hún er með glúten- og laktósaofnæmi hefur þurft að aðlaga og búa til nýjar uppskriftir af kökum, vöfflum, amerískum pönnukökum og brauðum já og bara allskonar í sambandi við mat
.
— BJARNEY INGIBJÖRG — ÍSAFJÖRÐUR — MUFFINS —
.
Þessar bláberja möffins urðu til eftir nokkrar tilraunir. Áskorunin sem felst í því að nota glútenlaust mjöl er sú að kökurnar verði mjúkar og djúsí og það sé hægt að borða þær daginn eftir nema allt klárist um leið og þær koma úr ofninum. Það sem gerir gæfumuninn þegar bakað er úr glútenlausu mjöli er að þeyta eggin og sykurinn mjög vel saman svo það myndist loft sem gerir kökurnar mjúkar og djúsí. Hér gildir ekki að rumpa bakstrinum af heldur njóta og fylgjast með eggjunum og sykrinum breytast í dásamlegan ljósgulan og loftkenndan massa.
Annað sem er nauðsynlegt að nota er eplaedik. Það virkar þannig á glútenlaust mjöl að þegar það er bakað þá helst loftið í deiginu og við endum ekki með þurra köku eða köku sem er eins og klumpur og endar í rustlinu. En nóg um þetta. Nú er komið að því að baka. Njótið!
Byrjið á því að stilla ofninn á 200°C á undir og yfir hita. Munið að ofnar eru mismunandi og því er bökunartími ekki alltaf sá sami því gef ég upp 30 – 40 mínútur fyrir þessar dásamlegu og mjúku möffinskökur.
Bláberjamöffins
100 g smjör
2 dl kókos- eða haframjólk
½ msk eplaedik
1 tsk vanillusykur
2 egg
1.5 dl hrásykur
4 dl glútenlaust hveiti
2 tsk lyftiduft
smá salt
1 dl tapioca hveiti eða annað glútenlaust hveiti
2 tsk tapioca starch (hægt að nota kartöflumjöl)
2 dl bláber, fersk eða frosin
1 tsk flórsykur
Aðferð:
Setjið bláber og flórsykur í litla skál og blandið því saman með sleif – látið bíða á meðan deigið er búið til.
Bræðið smjör í potti og látið kólna. Á meðan smjörið kólnar er hægt að þeyta saman egg, hrásykur og vanillu þar til blandan er létt og ljós og engin sykurkorn lengur í blöndunni.
Í aðra skál er öllum þurrefnunum blandað saman: glútenlausu hveiti, lyftidufti, salti, tapioca hveiti og tapioca starch/kartöflumjöli.
Núna hefur smjörið kólnað og þá er mjólkinni og edikinu blandað saman við.
Þurrefnunum og vökvanum er blandað til skiptis við eggjasykurblönduna. Gott er að láta hrærivélina ganga á lágum hraða og stoppa inn á milli og skafa meðfram hliðunum með sleif því sem safnast þar fyrir.
Raðið möffinsformum á bökunarplötu og fyllið það þar til ¼ hluti þess er eftir (sem sagt ekki fylla þau alveg af deigi) því ofan á hverja köku setjið þið bláberjablönduna.
Þetta passar í 14 til 16 form, fer eftir stærðinni á þeim.
Setjið inn í heitan ofninn og bakið í 30 – 40 mín.
Njótið!
.
— BJARNEY INGIBJÖRG — ÍSAFJÖRÐUR — MUFFINS —
–