Mátturinn í máltíðinni – matarást Valgeirs

Valgeir Skagfjörð og Elísabet Reynisdóttir svo týnist hjartaslóð vopnafjörður
Valgeir Skagfjörð og Elísabet Reynisdóttir

 Valgeir Skagfjörð skrifar sögu Betu Reynis næringarfræðings í bókinni Svo týnist hjartaslóð, sem kom út fyrir jólin. Ein af þessum bókum sem ekki er hægt að leggja frá fyrr en hún er búin.  Matur kemur eðlilega nokkuð fyrir í bókinni enda segir Beta frá því hvernig hún tók á eigin heilsu með því að horfa á alla þætti, þar á meðal matinn sem skiptir okkur öll svo miklu. Hér að neðan er texti sem Valgeir skrifaði, eins og sjá má er auðvelt að fá matarást á Betu.

BETA REYNISVOPNAFJÖRÐURMATARÁST

Mátturinn í máltíðinni

Að skrifa bók upp á nokkur hundruð blaðsíður er ekki beinlínis létt áhlaupaverk. Það þarf þolgæði og þrautseigju til að komast frá fyrsta kaflanum til þess síðasta. Svo týnist hjartaslóð er það verk sem hefur reynt hvað mest á úthald og seiglu hvað mig sjálfan varðar. En það var öðrum þræði viðvera og samneyti við sögupersónuna sjálfa sem reið baggamuninn þegar mér loks tókst að skila handritinu til útgefandans eftir sex mánaða vinnutörn sem var lituð af öllu litrófi mannlegra tilfinninga. Það var ekki síst hún sjálf sem skóp þá ritgleði sem var með mér á þessu lærdómsríka ferðalagi. 

Í svona vinnu er auðvitað mikilvægt að næra sig líkamlega og það veit sögupersónan, Beta Reynis mætavel. Næringarfræðingurinn sjálfur sá til þess að rithöfundurinn borðaði hollan og næringarríkan mat. Hún er ekki bara næringarfræðingur heldur listakokkur að auki eins og formæður hennar. Einkum amma hennar og nafna, Beta amma á Vopnafirði sem kemur mjög við sögu í bókinni. Kaflinn um það hvernig tekist var á um pólitík við eldhúsborðið þar er mér hugleikinn, en um leið og Beta amma bar fram matinn þá þögnuðu allir og gerðu máltíðinni skil með andakt. Sannarlega var mátturinn í máltíðinni mikill og sömu sögu er að segja um Betu Reynis. Þegar ég hófst handa við ritstörfin fór ég ekki varhluta af því að kynnast matargerðarlist hennar. Hún gaf mér til dæmis þá bestu lambalifur sem ég hef á ævi minni smakkað og hún gat hlegið þessi lifandis býsn yfir ánægjuhljóðunum sem ég gaf frá mér á meðan ég tuggði hvern munnbita rymjandi og stynjandi upp úr mér hvað mér þætti þetta góður matur. Sjálfur er ég mikill áhugamaður um mat og lærði að tileinka mér ýmislegt í matargerð í þessu samstarfi okkar. Eins og til dæmis sú almenna regla hennar að elda við lágan hita í langan tíma. Það var eitthvað nýtt fyrir mér. Ég hafði til dæmis alltaf viðhaft það vinnulag að steikja lambakjöt við snapran hita og setja það síðan inn í ofn en þegar ég fylgdist með Betu byrja á því að setja lambafilé inn í ofn við lágan hita í dágóðan tíma og steikja það síðan á pönnu þá var mér öllum lokið. En þegar kjötið var komið á diskinn þá rann hnífurinn í gegn eins og það væri smjör og bráðnaði á sama hátt í munni. Já, mátturinn í máltíðinni er mikill og ég var alltaf jafn hissa á hverri einustu máltíð sem Beta bar á borð á meðan við vorum að skrifa. Ég sat og pikkaði á meðan hún var að sýsla við pottana og pönnurnar og réttirnir voru ekki af verri endanum. Hægeldaður kjúklingaréttur með hrísgrjónum, rótargrænmeti og bökuðu graskeri til hliðar. Bakaður þorskur með sætum karftöflum, salati og Hollandaise-sósu. Alls konar grænmetisréttir, Tortillur með humri, hægeldaðir lambaskankar og svona mætti lengi áfram telja. Já, það er engu logið með máttinn í máltíðinni hjá Betu. Á lokasprettinum var ég að mestu leyti heima hjá mér í Hveragerði við skriftirnar og hvernig gat ég annað en sagt já takk þegar hún hringdi til að bjóða fram aðstoð og gerði sér ferð hingað austur til að vera mér félagsskapur, andlegur stuðningur, sögumaður og sérlegur kokkur? 

Enda kemur matur mikið við sögu í bókinni og eins og við öll vitum þá er matur ekki bara matur. Mátturinn í máltíðinni er mestur þegar hann er eldaður og borinn fram af hreinum kærleika. Það er eitt sem Beta Reynis er svo dásamlega góð í. Og það sem meira er, það er aldrei áreynsla. Það er fegurðin í þessu öllu saman. 

Valgeir Skagfjörð 

— MÁTTURINN Í MÁLTÍÐINNI —

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.