Glútenlaus veisla hjá Bjarneyju Ingibjörgu
Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir tónlistarkennari á Ísafirði hefur oft komið við sögu hér á blogginu enda flink í eldhúsinu. Í æsku fór mjólk illa í hana og einnig forðaðist hún brauðmeti öll ungdómsárin. Þessu fylgdu ristil krampar og fleiri óþægindi sem ollu usla og þjáningum. „Ég áttaði mig ekki á að það er mjólk í svo mörgu og vanlíðanin ágerðist með árunum með miklu þyngdartapi”
— BJARNEY INGIBJÖRG — ÍSAFJÖRÐUR — GLÚTENLAUST —
.
Til að gera langa sögu styttri greindist Bjarney með laktósaóþol, glútenóþol og IBS (Irritable bowel syndrome) sem framkallar m.a. ristilkrampa og mikla uppþembu.
Bjarney áttaði sig betur á matartengdum málum með því að halda matardagbók, við það varð myndin skýrari. Mjólk og glúten eru víða og í ýmsum myndum.
Streita er eitt af því sem er vont fyrir fólk með IBS, þá þarf að passa að borða reglulega.
Til að snúa dæminu við tók Bjarney ráðin í sínar hendur, las sig til og fékk aðstoð. Margt hefur hún fundið út sjálf á eigin skinni eins og að sakleysisleg ferð á sushi stað kostaði uppþembu og óþægindi. Hvers vegna var hrein afurð eins og fiskur með hrísgrjónum að valda þessum einkennum? Þá fattaði hún að í sojasósunni sem fylgir með er glúten.
Svona litlir hlutir leynast víða og þarf maður að afla sér upplýsinga t.d. þegar maður fer á veitingahús. Best finnst mér að hringja á undan því þá fær maður betri þjónustu og getur verið viss um að ánægjuleg ferð út að borða endi ekki á veikindum daginn eftir.
Það er margt sem breytist þegar maður hefur þessa samsetningu á óþoli og ofnæmi.
Maður skreppur t.d. ekki út í bakarí, pantar pitsu eða í sjoppuna að kaupa sér samloku.
Ég komst að því um daginn að það er veitingastaður í Hafnarfirði sem heitir Cooking Harmony og sérhæfa þau sig í glúten og laktósalausum mat og kökum.
Núna býr Bjarney til matinn meira og minna frá grunni. „Mjólkurvörurnar frá Örnu eru himnasending fyrir okkur sem eru með laktósaóþol. Svo eru allar glútein lausar vörurnar frá Semper og Shär stórfínar. Ég elska að baka. Því var mikil áskorun fyrir mig að finna út hvernig hægt sé að gera góðar kökur og brauð sem ekki lenda í ruslinu. Það er ekki nóg að skipta út venjulegu hveiti úr fyrir glútenlaust eða aðrar tegundir eins og bóghveiti, möndlumjöl, kókosmjöl o.þ.h. Ég fór því að lesa mér til og eitt af því sem nauðsynlegt er að nota til að binda saman deigið í bakstrinum er Pofiber duft frá Semper og eplaedik. Tapioca hveitir og sterkja (starch) og arrow starch eru vörur sem mikið eru notaðar í bæði i Paleo og Plant Paradox mataræðinu en þetta er glúten laust hveiti og bindiefni. Þessar vörur nota Asíubúar mikið í sína matargerð.
Í bakstur notar Bjarney jafnhendis kókosmjöl, bóghveiti, maísenamjöl, möndlumjöl og glútenlaust hveiti. Það er gott að blanda saman tveimur til þremur tegundum af mjöli þegar maður bakar brauð. Það verður léttara og bragðbetra.
Auk mataróþolsins er Bjarney bæði með fjölvöðvagigt og vefjagigt. Hún segir að sykur hafi mjög slæm áhrif á gigtina og finni fyrir auknum stirðleika ef hún borðar eitthvað sem inniheldur sykur. „Kókospálmasykur hentar best til að sæta matinn, einnig kókosnektar sem er síróp úr kókospálmasykri. Náttúrulegt hunang er í lagi – ekta hunang.
Ég hvet alla sem hafa mataróþol af einhverju tagi að lesa aftan á vörurnar í búðunum. Ef listinn er langur settu það þá aftur á sinn stað í hilluna. Ef listinn er stuttur þá er í lagi að setja vöruna í innkaupakerruna.
Vetrarsúpan
Kókosolía til steikingar
3 hvítlauksrif
2 cm engiferrót
1 sæt paprika (þessi langa)
5 gulrætur
3 kartöflur
2 sætar kartöflur
1 ferskur chilipipar
1 msk túrmerik
1 msk paprikuduft/ungverskt paprikuduft
1 msk kóríander duft eða korn mulin í morteli
1 ½ msk grænmetiskraftur frá Sollu
Salt og pipar
1 dós niðursoðnir tómatar
2 msk tómatpúrré
1 ferna af kókosmjólk (ég nota þessa þykku frá Santa Maria)
1.5 dl rauðar linsubaunir
1 l vatn og jafnvel meira þegar líður á eldamenskuna
Skera allt grænmeti niður áður en farið er að elda.
Bræða kókosolíu í potti.
Setja allt krydd út í og látið malla í 1 mín (þá myndast loftbólur).
Setja hvítlaukinn út í og steikja ásamt chilipipar.
Allt grænmetið sett út í og látið malla smá stund.
Niðursoðnir tómatar og púrré sett út í.
Vatn og rauðum linsubaunum bætt við.
Allt látið malla þar til grænmetið og linsubaunirnar eru soðnar. Hræra vel í á milli svo baunirnar setjist ekki á botninn og brenni þar við.
Þegar grænmetið og baunirnar eru soðnar þá er kókosmjólkin sett saman við. Hér þarf e.t.v. að bæta við meira af vatni ef hún ætlar að verða of þykk.
Allt sett í matvinnusvél eða töfrasproti notaður til að gera súpuna kremaða og mjúka.
Bera súpuna fram með sýrðum rjóma (ég nota Örnu) og ferskum kóríander. Einnig er gott að sletta einhverri góðri ólífuolíu yfir súpuna áður en hún er borin fram.
Bollur – mjúkar og djúsí
25 gr lifandi ger eða 2 ¼ tsk þurrger
75 gr smjör
1 dl Örnu rjómi
1 ½ dl Örnu mjólk
1 msk ljóst síróp – ég nota sukkrin gold síróp
1 tsk salt
1 egg
465 gr glútenlaust hveiti (ég nota FINAX í rauðu dunkunum)
Bræðið smjörið og mjólkina saman í potti. Fylgist vel með að það hitni ekki um of, það á verða fingurheitt annars drepst gerið ef það blandast við of heitann vökva. Gott að nota hitamæli og miða við rúmlega 37°.
Þurrgerið mælt og sett í hrærivélaskál.Ef þið notið lifandi ger þá er það mulið ofan í hrærivélaskál.
Hellið bræddu smjöri og mjólk yfir gerið og hrærið varlega saman með sleif þar til það hefur samlagast og engir kekkir eru.
Setjið síróp, salt, egg, rjóma og hveiti saman við og látið hnoðast í vélinni í 5 mín. Best er að nota krókinn sem fylgir vélinni.
Setjið klút yfir skálina og látið hefast í 45 mín.
Takið deigið úr skálinni og hnoðið því saman, kannkski þarf meira hveiti en ekki víst því deigið er ekki blautt. Gætið þess að hnoða ekki of mikið. Fletjið út lengju með höndunum, skerið í hæfilega bita sem þið mótið í bollur. Það nást 12 – 14 bollur úr uppskriftinni.
Setjið þær á bökunarplötu, setjið klút yfir og látið hefast í 30 mín.
Hitið ofninn áður en seinni hefingin er búin svo bollurnar fari inn í heitan ofn þegar þær eru bakaðar.
Baka í 8 – 10 mín í miðjum ofni við 225°C – undir og yfir hita.
Ostakaka úr vegan rjómaosti með karamellukremi
Botninn:
10 döðlur, settar í volgt vatn til að mýkja þær
2 msk kókosólía
1 msk fínt eða gróft hnetusmjör
1 dl músli frá Tobbu (má nota hvaða músli sem er en helst sykurlaust)
1 msk möndlusmjör
1 msk döðlusýróp
1 dl glútenlaust haframjöl
Öllu blandað saman í matvinnsluvél og sett í bökuform. Kælt á meðan ostakakan er útbúin.
Kakan:
200 gr vegan rjómaostur (Fæst í Nettó, er frá Violife)
2 dl Örnu rjómi
2 msk sukkrin gold síróp
Safi úr einni sítrónu
Börkur af einni sítrónu
1 tsk vanilla
Aðferð:
Stífþeyta rjómann.
Þeyta saman rjómaost, vanilla og sukkrin sírópi.
Setja sítrónusafann og börkinn út í og hræra vel saman.
Stífþeyttur rjóminn settur að síðustu út í.
Setja yfir botninn og setja í kæli. Á meðna er karamellukremið útbúið.
200 gr vegan rjómaostur
3 msk kókosrjómi (í fernunum frá Santa Maria)
2 msk sukkrin gold caramel síróp
4 dr toffee caramel frá Stevia
1 msk döðlusíróp
Hræra saman ostinum og kókosrjómanum þar til engir kekkir eru og blanda svo öllu hinu saman við. Setja yfir kökuna og í kæli. Gott að kæla í 2 – 4 tíma eða gera daginn áður og geyma í ísskáp yfir nótt.
Kókoskakan hennar Eyju ömmu – með smá tvisti
Neðri botninn:
4 eggjahvítur
140 gr hrásykur
140 gr kókosmjöl
1 tsk vanilla.
Efri botninn:
4 eggjahvítur
75 gr kókospálmasykur
140 gr kókosmjöl
1 tsk vanilla
Aðferð: Botnarnir eru gerðir í sitthvoru lagi en sama aðferðin gildir um þá báða.
Þeyta saman eggjahvítur og sykurinn þar til það myndast toppar og hægt að hvolfa skálinni. Þegar maður notar kókospálmasykur þá þarf maður að sýna smá þolinmæði og leyfa þessu að þeytast í dáldinn tíma en það verður aldrei eins þykkt og með hinum sykrinum.
Bæta kókosmjöli og vanillu út í og hræra vel saman.
Setja í tvö hringlaga form og baka við 160°C í 30 – 40 mín
Súkkulaðikremið.
Tvöföld uppskrift gefur manni mikið krem og sumir vilja það. Það er líka hægt að gera eina og hálfa uppskrift og þá fær maður passlega mikið krem. Þitt er valið. Ég gef hér einfalda uppskrift af kreminu því auðvelt er að minka hana um helming.
4 eggjarauður
100 gr flórsykur
100 gr brætt súkkulaði
50 gr smjör
Aðferð:
Bræða saman súkkulaði og smjör yfir vatnsbaði
Þeyta saman eggjarauður og flórsykur þar til blandan hefur tekið á sig ljósgulan lit.
Setja súkkulaðið út í í mjórri buni og hræra vel saman.
Kakan sett saman:
Ljós botn neðst
Krem
Dökki botnin ofan á
Krem
Strá kókösmjöli yfir til að skreyta.
Borin fram með rjóma (frá Örnu) og kókoskremi en þá er kókosrjómi frá Santa Maria þeyttur vel og 1 tsk vanilla sett út í.
.
— GLÚTENLAUS VEISLA BJARNEYJAR INGIBJARGAR —
.