Íslensk kjötsúpa og hnoðuð sveskjuterta hjá Önnu Sigríði

sveskjur hnoðuð sveskjuterta LAGKAKA lagkökur lagterta íslensk kjötsúpa ísland íslenskur matur súpa útvarpið útvarpsþula hugheilar jólakveðjur Bergþór, Anna Sigríður Einarsdóttir og Svanhildur jakobsdóttir
Bergþór, Anna Sigríður og leynigesturinn Svanhildur Jakobsdóttir.

Íslensk kjötsúpa og hnoðuð sveskjuterta hjá Önnu Sigríði

Anna Sigríður Einarsdóttir fyrrverandi útvarpsþulur bauð í kjarnmikla rammíslenska kjötsúpu og hnoðaða sveskjutertu á eftir. Kjötsúpa minnir okkur á haustið og veturinn og lagkakan sérstaklega á jólin, en Anna Sigríður er ein af röddunum sem les okkur hugheilu jólakveðjurnar á Þorláksmessu.

ANNA SIGRÍÐURSVANHILDURKJÖTSÚPAJÓLINHUGHEILARÞORLÁKSMESSASÚPURLAGKÖKUR

.

Íslensk kjötsúpa fyrir 10-12

2,5–3 kg súpukjöt
2 msk. gróft salt
1 meðalstór laukur, gróft skorinn, í ca. 10 hluta
1/2 – 1 púrrulaukur eftir stærð, skorinn, nota bæði hvíta og græna hl.
3 – 4 stönglar blaðsellerí, skorið
Íslenskt hvítkál, ca. ¼ af nettum haus, skorið
Íslenskar þurrkaðar súpujurtir, ca 3/4 úr pokanum
1 bolli hrísgrjón
1 handfylli grófvalsað haframjöl ef vill
Kartöflur 4 – 6 eftir stærð
Gulrófur 2 – 3 eftir stærð, skornar í bita
Gulrætur 2 – 3 skornar í bita

3,5 – 4 lítrar af vatni í a.m.k. 7 lítra stóran pott. Kjötbitar snyrtir og raðað í með lauk og grófu salti. Láta suðuna koma hægt upp og á meðan bæta öðru út í, síðast kasta út á súpujurtum og grjónum. Fleyta froðu og sora ofan af þegar suðan kemur upp, halda suðunni á lágum hita og láta malla í 1 ½ tíma. Ef borða á súpuna samdægurs má bæta kartöflum, rófum og gulrótum út í og sjóða með í ca. 3 korter, eða sjóða þessar þrjár tegundir út af fyrir sig og bera fram sitt í hverju lagi; kjöt, grænmeti og súpu.
Ef borða á súpuna daginn eftir er kjötið veitt upp úr súpunni, hreinsað af beinum og skorið í meðalstóra bita, geymt í séríláti og kælt (hreinsuð burt mesta fitan ef vill.) Stærstu kjötbeinin sett aftur út í súpupottinn sem geymdur er á köldum stað yfir nótt, t.d. úti á svölum. Daginn eftir eru kartöflur, rófur og gulrætur soðnar út af fyrir sig, kartöflur afhýddar ef vill og skornar í bita ásamt gulrófum og gulrótum. Raðað í lögum í vænan, huggulegan pott: kældir kjötbitar, kartöflur, rófur, gulrætur. Hrært vel upp í kældri súpunni og kjötbeinin veidd upp úr áður en henni er hellt yfir. Allt hrært varlega saman með sleif og suðan látin koma rólega upp. Hrært í öðru hverju og látið malla í ca. 30 mín. Smakkað til, smá salti bætt í eftir þörfum og smekk. Borið fram í pottinum.

Fjögurra laga hnoðuð sveskjuterta

Hnoðuð sveskjuterta
– fjögurra laga kaka –

Nauðsynlegt er að gefa sér góðan tíma fyrir þessa köku, hafa þolinmæði og heitar hendur. Smjör og egg þurfa að vera við stofuhita.

Sveskjumauk:
750 g steinlausar sveskjur
1 tsk. fínt salt
250 g sykur
Best er að byrja daginn áður að sjóða sveskjumaukið: sveskjur í stálpott með salti, vatn látið fljóta vel yfir og soðið við lágan hita í nokkrar klst. eða þangað til sveskjurnar eru komnar vel í sundur. Gæta þess að festist ekki við botninn, bæta við vatni ef þarf. Síðast (daginn eftir) er suðan rétt látin koma upp, hrært í og sykri bætt í sem bráðnar rólega saman við og þynnir hræruna svolítið. Bæta vatni við ef þarf en hafa venjulega sultuþykkt í lokin. Slökkva undir og taka af hellunni, láta kólna að mestu.

Kökuuppskrift:
1250 g hveiti
500 g smjör
500 g sykur
7 ½ tsk. lyftiduft
3 egg
Vanilludropar

Best er að hnoða deigið í tvennu lagi, mæla helming og helming af uppskriftinni hér að ofan. Blanda lyftidufti saman við hveitið sem fer fyrst á borðið, þá sykurinn. Hræra 1 tesk. af vanilludropum saman við 1 ½ sundurslegið egg og setja í holu í sykurinn. Þá er smjörið sett hér og þar í litlum bitum (alls ekki bræða smjörið.) Hnoðað með áðurnefndri þolinmæði. Þegar deigkúlurnar tvær eru komnar saman eru þær kældar í um hálftíma, þá eru þær vigtaðar og skornar í tvo jafna hluta til að fá kökulögin á bökunarplötunum jöfn að þyngd og stærð.
Sníða bökunarpappír á ofnplöturnar, 4 arkir. Byrja að fletja út á borði fyrsta deighlutann en fljótlega þarf að færa hann yfir á pappírsklædda bökunarplötuna og klára að fletja út þar. (Gott að hafa rakt stykki undir plötunni til að hemja hana.) Deigið flatt frekar þunnt út og látið ná sem mest og jafnast út til endanna. Skera af of stóra anga og skeyta þeim inn í hornin þar sem of lítið er þangað til kakan er sem jöfnust til jaðranna, sjá mynd. Fara eins að með hina deighlutana, hafa tilbúnar tvær bökunarplötur áður en byrjað er að baka.
Stilla ofninn á 220° og setja fyrstu plötu í ofninn þegar hann lætur vita að hitinn er 220. Ofnar eru misjafnir en þessa köku á að baka við háan hita, 210-220°. Viðmiðunartími er 10 mín. en sumir ofnar klára þetta á skemmri tíma, 7-8 mín. Athugið að fylgjast þarf mjög vel með ofninum og eftir 6-7 mín. má ekki líta af honum; kakan er mátulega bökuð þegar ljósbrúnir flekkir koma í ljós víðs vegar á yfirborðinu en þeir mega alls ekki verða dökkbrúnir því þá verður kakan stökk og molnar.
Ég hef ekki lagt í að baka tvær plötur í einu en flinkir bakarar geta það sjálfsagt. Ég hef því slökkt á ofninum eftir tvær plötur til að fá tíma til að fletja seinni deighelmingana út á plöturnar þegar þær eru lausar og orðnar kaldar, en fæstir eiga fleiri en tvær bökunarplötur með sínum ofnum.
Þegar 1. kakan er tekin úr ofninum er hún látin hvíla á plötunni í nokkrar mínútur. Hafið tilbúinn sléttan flöt nógu stóran fyrir kökuna, bretti eða alveg flatan bakka. Látið því næst kökuna á pappírnum renna af plötunni yfir á brettið/bakkann og gætið þess að sem minnst sveigja komi á. Þannig situr neðsta lag kökunnar á pappírnum á brettinu.
Því næst er kakan látin kólna aðeins betur áður en sveskjumauki er smurt jafnt yfir og vel út til enda, látið ekki skína mikið ljóst í gegn.

Farið öðru vísi að með hinar 3 kökurnar þegar þær koma úr ofninum: Látið hvíla og kólna í nokkrar mínútur. Losið því næst varlega með flötum spaða milli pappírs og köku þar til hún er laus, haldið vel um pappírinn þeim megin sem plötunni er hallað, ýtið aðeins með spaðanum og látið kökuna renna sem flatasta af pappírnum yfir á sveskjumauks-smurða kökuna sem fyrir er. Þetta endar á fjórum kökulögum og þremur sveskjumauks-lögum. Breiðið stykki yfir kökuna og látið hvíla, jafnvel til næsta dags. Þá er kakan skorin í 6 – 8 bita, hver biti inn í bökunarpappír og síðan í plastpoka. Geymist mjög vel á köldum stað. Gott að geyma í kæli þann bita sem bera á fram og skera beint úr kæli. Unaðsleg með þeyttum rjóma og ekki skemmir að drekka súkkulaði með. Svo þekkti ég einn sem laumaðist í sneið á jóladagsmorgni og drakk rjómabland með.

.

ANNA SIGRÍÐURSVANHILDURKJÖTSÚPAJÓLINHUGHEILARÞORLÁKSMESSASÚPURLAGKÖKUR

— VEISLA HJÁ ÖNNU SIGRÍÐI —

.

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.