Sveppabaka og sítrónulax
Anna Lóa Guðmundsdóttir er áhugakona um villta matsveppi og hefur sérhæft sig í þeim. Síðustu ár hefur hún reglulega haldið sveppanámskeið en á árum áður var algengt að fólk bankaði uppá til að biðja Önnu Lóu að greina sveppi sem það fann úti í náttúrinni. Eins og kunnugt er, eru ekki allir sveppir ætir og sumir geta verið okkur hættulegir. Anna Lóa og Gunnlaugur Einarsson hennar eiginmaður eru fagurkerar og höfðingjar heim að sækja – allt svo lekkert og smart. Þau buðu okkur í sveppaböku, sítrónulax og súkkulaðitertu – hvert öðru betra. Sveppabökuuppskriftin kemur upphaflega frá Svíþjóð en með árunum hefur hún þróast í meðförum Önnu Lóu sem segist finna fyrir auknum áhuga á villtum matsveppum.
— ANNA LÓA — SVEPPIR — BÖKUR — LAX — ÍSAFJÖRÐUR — SVEPPABAKA —
.
Sveppabaka
Bökudeig
100 gr smjör eða smjörlíki
2 1/2 dl hveiti
1 1/2 dl rifinn ostur
smá salt
2 msk kalt vatn, sett í síðast
Deigið hnoðað saman sett í ískáp um 30 mín.
Flatt út og sett í eldfast mót 25 cm. Deigið þarf að gata vel með gaffli fyrir bakstur.
Bakið í 10 – 15 mín í 200°C, kælt áður en fyllingin er sett í.
Sveppafylling
4 dl blandaðir sveppir
2 dl laukur saxaður fínt
1 gott hvítlauksrif
salt pipar, timían ( blóðberg)
Laukurinn og hvítlaukurinn steiktur smá í olíu og smjöri.
Sveppunum bætt við og steikt saman með kryddi.
Fyllingin sett í deigskelina.
Ofan á sveppina
2 dl rjómi lausþeyttur
2 eggjarauður
2 1/2 dl rifinn ostur
1 dós sýrður rjómi (eða grísk jógurt)
Gott að smakka til, nota salt, pipar hvítlauksduft, timian.
Rjóminn léttþeyttur, eggjarauður hrærðar í, hinu blandað saman við.
Hellt yfir sveppina, bakað í 190-200°C í uþb 30 mín eða þangað til ostablandan hefur tekið lit.
Lax í sítrónusósu fyrir 4
4 góðir laxabitar roðlausir
uþb 150 gr rækjur
Sósan
1 msk smjör brædd í potti
1 msk hveiti hrært í, búin til bolla
3 dl rjómi hrært í og
uþb 4 msk creme fraiche
1/2 msk humarfond eða 1/3 fiskiteningur
rifinn börkur af einni sítrónu og sítrónusafi 1-2 msk. Smakkað til
Laxinn settur í ofnfast fat, smá salt og sósan yfir. Bakað í uþb 15 mín. við 200°C
Rækjunum dreift yfir áður en borið fram.
Kartöflur með eða hrísgrjón og salat.
— ANNA LÓA — SVEPPIR — BÖKUR — LAX — ÍSAFJÖRÐUR — SVEPPABAKA —
.