Kúrbítsbrauð. Nú er ég farinn að nota heilhveiti mun meira en áður, stundum með venjulegu hveiti en oftast ekki. Þó líkami okkar sé næstum því fullkominn þá ræður hann ekki við að melta heil hörfræ. Best finnst mér að mala þau í kaffikvörninni, matvinnsluvélar vinna illa á þeim. Kannski er allt í lagi að nota ómöluð hörfræ í brauðið, ég hef bara ekki prófað það. Eins og áður hefur komið fram er kúrbítur meinhollur
Kúrbítsbrauð
6 msk möluð hörfræ
1 dl heitt vatn
2 dl sykur
1 dl góð olía
1 dl eplamús
1 tsk vanilla
2-2 1/2 b rifinn kúrbítur
4 dl heilhveiti
1 msk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1 msk kanill
2 tsk múskat
1 tsk salt
1 dl súkkulaði, saxað
1 dl rúsínur
Blandið saman hörfæjum og heitu vatni. Bætið við sykri, olíu, eplamús, vanillu og kúrbít – hrærið vel saman. Blandið saman öllum þurrefnunum í aðra skál. Blandið þurrefnunum saman við fyrri skálina og hrærið vel saman. Smyrjið tvö brauðform, setjið deigið í og bakið við 170° í 55-60 mín. Berið fram volgt með hollu góðu viðbiti
Sæll Albert,
Sé að þú ert mikill brauðbakari , ég lærði að baka gerbrauð þegar ég bjó í Svíþjóð fyrir 30 árum og tek mig enn til og baka með barnabörnunum af og til og einnig hollustubrauð sem eru gerlaus. ég hef keypt tilbúið hörfræjamjöl hjá KOSTI en þar fæst ógrynni af alls kyns skemmtilegum fræjum og korni (en þetta veistu kannski nú þegar). Nú er ég sem sagt búin að koma mér upp súrdeigsgrunni samkvæmt þínum leiðbeiningum í DV, ætla að baka í kvöld en spurning dagsins er , geymi ég deigið í lokuðu íláti í kæli eða bara við stofuhita ?
Ég bakaði súrdeigsbrauð hérna á árum áður en þá fékk ég súrgrunninn í duftformi í umslagi sent frá Svíþjóð, en nú er spennandi að sjá hvort þetta lifandi krútt lifir dvölina af hjá mér á milli bakstra 🙂 Takk fyrir síðuna þína , og takk fyrir frábæra uppskrift að súkkulaðiköku með hnetum sem birt var einhver staðar í fyrra, ég baka hana oft og kalla hana “prins Albert”. Bestu kveðjur
Rut Helgadóttir (vinkona Soffíu Sæm.)
Vil ekki láta líta út fyrir að ég sé útlærður, en Sigurður Már í Bernhöftsbakaríi er pumpaður reglulega en þar fást geggjuð súrdeigsbrauð.
Ég hef súrinn í plastboxi með hálfþéttu loki, en þvæ það alloft á milli. Geymi hann á bekknum ef ég nota hann næsta dag en annars í ísskápnum. En það er gaman að prófa sig áfram, svo lærir lengi sem lifir
Comments are closed.