Biskupaterta. Ekki hef ég hugmynd um hvernig nafnið á þessari tertu er tilkomið, en góð er hún. „Alveg óvart“ fór heldur meira af sérrýi en segir í uppskriftinni en tertan varð held ég bara betri við það. Biskupaterta getur verið bæði kaffimeðlæti eða eftirréttur eins og hún var í stórfínu matarboði á dögunum.
Biskupaterta
Botn:
4 eggjahvítur
1/2 b sykur
1 1/2 b möndlur með hýði, saxaðar(ekki of smátt)
1 tsk lyftiduft
smá salt
Stífþeytið eggjahvíturnar með sykrinum. Þegar hvíturnar eru orðnar mjög stífar bætið þá möndlum, lyftidufti og salti saman við og blandið saman við með sleif. Setjið í kringlótt form, bakið við 200° í 20-30 mín. Látið kólna.
Krem:
4 eggjarauður
3 msk sykur
4 matarlímsblöð
3 msk sérrý
1/4 l rjómi.
Stífþeytið rjómann og geymið hann í ísskáp. Þeytið eggjarauður og sykur mjög vel saman. Bræðið matarlímið í vatnsbaði, setjið sérrýið saman við matarlímið á meðan það er að bráðna (má ekki vera of heitt). Bætið þessu saman við rauðurnar og þar á eftir þeytta rjómanum. Látið stífna lítið eitt áður en þetta fer yfir tertubotninn.
Skreytið með rifnu súkkulaði.