Gulrótarhummus Diddúar
Söngkonan Sigrún Hjálmtýsdóttir bauð heim á dögunum, þegar Diddú býður heim þá er veisla – stórveisla og mikið af öllu og eins gott að mæta ekki þangað saddur. Ég byrjaði á því að ganga á Esjuna og þaðan inn í Mosfellsdalinn til Diddúar. Þegar þangað var komið var ég auðvitað banhungraður 🙂
.
#2017Gestabloggari 33/52 — DIDDÚ — HUMMÚS —
.
Gulrótarhummus Diddúar
1,2 kg gulrætur (skornar smátt og soðnar í góðum grænmetiskrafti)
3 msk jómfrúrolía
4 hvítlauksrif
5-10 cm engiferrót (rifin fínt)
2 tsk turmerik
3 tsk broddkúmen (cumin)
3 tsk kanill
4 msk sítrónusafi
100 ml tahini
100 ml grísk jógúrt
Ferskur kóriander (magn eftir smekk)
Olían hituð á pönnu og öllu kryddinu ásamt rifinni engiferrótinni og pressuðum hvítlauk bætt útí og látið krauma, þar til ilmurinn verið ómótstæðilegur!
Þegar gulræturnar eru orðnar mjúkar, er vökvanum hellt af og þeim blandað saman við kryddblönduna ásamt sítrónusafanum. Kælt smá stund. Allt sett í skál (tahini og gríska jógúrtin líka) og maukað með töfrasprota, þar til ykkur finnst nóg um!
Að lokum er slatta af smátt söxuðum ferskum kóriander blandað saman við.
Best að búa þetta til minnst degi fyrir notkun.
Gott sem meðlæti eða á ristað brauð.
.
Annað sem Diddú bauð upp má sjá hér að neðan.
Marengstertan er einföld, tveir botnar settir saman með þeyttum rjóma og fullt af kókosbollum. Skreytt með jarðarberjum, hindberjum og bláberjum. 70% súkkulaði brætt og teiknaðar oná berin, elegant línur.
Klettasalat og blandað salat með bláberjum, ferskum döðlum og stökku beikoni. Appelsínudressing (appelsínuþykkni, hvítvínsedik og góð olía)
Vatnsmelónusalat með fetaosti, svörtum ólífum, myntu, marineruðum rauðlauk í limesafa, heslihnetum og hindberjadressingu.
Spínatsalat með sykurbaunum, fennel, grilluðum þistilhjörtum, kjúklinga-og nýrnabaunum, piccolotómötum og pestódressingu.
.
#2017Gestabloggari 33/52 — DIDDÚ — HUMMÚS —
.