Mjólkuróþol eða ADHD ?

MJÓLKURÓÞOL EÐA ADHD?
Mjólkuróþol eða ADHD ?

MJÓLKURÓÞOL EÐA ADHD?

Áhugaverð saga móður um breytingarnar sem urðu á dóttur hennar þegar hún hætti að fá mjólk og mjólkurvörur. Matur er undirstaða alls, hollur góður matur sem hentar hverjum og einum. Gleymum því ekki að við erum ólík.

Á síðunni Matarmamman.com birtist þessi grein

Mjólkuróþol eða ADHD ?

Ég hef nefnt það nokkrum sinnum á þessari síðu að dóttir mín sé með mjólkuróþol og þess vegna eru flestar uppskriftirnar mjólkurlausar. En það er innan við ár síðan það komst á hreint og þá var hún alveg að verða 6 ára. Mig grunar að það séu mörg börn í viðbót sem eru með mjólkuróþol án þess að það hafi verið greint eða sá möguleiki skoðaður.

Mér er minnstætt samtal sem ég átti við góða vinkonu fyrir nokkrum árum síðan. Við sátum og drukkum kaffi og ræddum heima og geima. Ég kvartaði og kveinaði yfir því hvernig dóttir mín hagaði sér, þá 3-4 ára, en hún var mjög erfið í skapinu, með mikinn mótþróa auk þess að vera með exem og alltaf lasin. Ég tengdi auðvitað pirringin við veikindin en hvoru tveggja voru endalaus. Vinkona mín spurði hvort hún væri ekki bara með mjólkuróþol (eins og sonur hennar), en ég hélt nú ekki, mér fannst miklu líklegra að hún væri með ADHD en að hún væri með mjólkuróþol!

Á þeim tíma var ég reyndar búin að minnka mjólkurneyslu heilmikið, það gerði ég fyrst til að athuga hvort exemið myndi minnka og svo út af því hversu slímmyndandi mjólkin er og vonaði að horframleiðslan og króníska kinnholubólgan myndi eitthvað minnka. Það bar árangur en að lokum voru nefkirtlarnir teknir líka og heilsan batnaði til muna. Þegar þarna var komið við sögu fékk hún enga mjólk í glas en þó einstaka ís, einstaka ost, einstaka rjóma, einstaka jógúrt en þegar þú ert með 10 vörutegundir sem þú færð þér einstaka sinnum safnast nú bara heilmikið magn sem líkaminn innbyrðir.

Þegar litla skvísan var ca 18 mánaða var mér fyrst sagt að hún þyldi ekki mjólk vel, það var Matthildur Þorláksdóttir, Heilpraktiker,eða náttúrulæknir sem sagði mér það. Ég veit ekki alveg af hverju það tók mig svona langan tíma að prufa það að taka allar mjólkurvörur út 100 % í amk. 3 vikur til að virkilega sjá muninn. Ég held að ég hafi ekki trúað hversu mikil áhrif þetta hefði. Annars hefði ég gert þetta strax, ég hugsa með söknuði um allar næturnar sem ég hefði getað sofið á þessum 4 árum hefði ég bara drifið í þessu strax en ekki hummað það fram af mér árum saman.

Mjólkurneyslan minnkaði þó alltaf aðeins þar sem mataræðið í heild fór alltaf batnandi. Ég var búin að gera mér grein fyrir því að mataræðið skipti heilmiklu máli til að dömunni liði vel. Húðin var orðin mjög góð, fyrir utan pínulitlar hvítar bólur á allri húðinni og hún var að mestu hætt að vera lasin. En skapið var stórt og erfitt og hegðunarerfiðleikar gríðarlegir. Þroskaþjálfinn í leikskólanum hafði áhyggjur af einhverfurófs-legri hegðun í leikskólanum í félagslegum tengslum en hún var hinsvegar alltaf stillt og góð, en svo sprakk allt þegar hún kom heim.

En hvað varð til þess að ég fór úr því að hafa hana á ca 80 % mjólkurlausu fæði í 100 % ? Ég las söguna af Sindra, sem gekk á netinu síðasta vor. Ég er mjög þakklát að mágkona mín skyldi sjá söguna og senda mér hana. Ég las gjörsamlega orðlaus því mér fannst að það væri verið að lýsa mínu barni þarna. Það var ekki allt eins, en margt. Þetta var nóg til þess að daginn eftir pantaði ég tíma hjá ofnæmislækni í þeirri von að fá vottorð fyrir leikskólann. Því það var jú ekki nóg að ég hefði mjólkurlaust hér heima.

Ég fór með kvíðahút í maganum til ofnæmislæknisins því ég var þess fullviss að ekkert kæmi út úr ofnæmisprófinu því hún hafði farið í svoleiðis áður þegar exemið var sem verst en ekkert komið út úr því. Læknirinn var hinsvegar hinn vingjarnlegasti og þó ekkert kæmi út á húðprófi tók hann vel í það að gera prufu í 2-3 vikur, það væri jú besti mælikvarðinn.

Ég skal gera langa sögu stutta. Þvílíkur munur ! Þvílíkur munur! Ég veit eiginlega ekki hver munirnn hefði verið hefði ég haft hana á miklu mjólkurfæði og dempt mér þannig í rannsóknina. Hún var ekki einu sinni að fá neina mjólk, bara einstaka mjólkurvöru. En við tókum öll mjólkurprótein út líka og þau geta verið í unnum kjötvörum, kryddum osv.fr. Eftir nokkra daga var mikill sjáanlegur munur. Hún varð öll rólegri, yfirvegaðri og í miklu betra jafnvægi. Allt í einu skipti ekki öllu máli í hvaða röð við löbbuðum út úr dyrunum, hver opnaði útihurðina, hver opnaði bílhurðina, heimferðin úr leikskólanum gekk miklu betur og hún varð öll hressari og hætti að taka öskurköst. Já alveg rétt, ég gleymdi að segja ykkur frá öskurköstunum, en þau voru þegar verst var 3x á dag og tóku 15-45 mín. Þau hættu!

Þegar ég las söguna hans Sindra sá ég ýmislegt sem ég hafði ekki tengt áður. Til dæmis að henni var alltaf svo heitt, vildi helst ekki vera í neinum fötum né sofa með sæng. Og þegar hún var yngri (og var að fá reglulega mjólk, skyr og jógúrt) vaknaði hún oft á nóttunni öskrandi og ekki hægt að ná sambandi við hana (night terror) en við héldum að það væri bara út af því að hún væri nýlega orðin stóra systir og þetta væri einhver afbrýðisemi í henni. Þess má geta að hún fékk ekki ungbarnakveisu þegar hún var lítil, hún átti aldrei við nein hægðarvandamál að stríða og kvartaði aldrei um að henni væri illt í maganum, kannski er það hluti af því að ég „trúði“ því ekki að hún gæti verið með mjólkuróþol.

Núna er hún búin að vera mjólkurlaus í 9 mánuði, með einstaka undantekningu. Þá erum við meðvituð um það og reynum að halda því í algeru lágmarki. Fyrir nokkrum mánuðum síðan urðu mistök í skólanum að hún borðaði venjulegan grjónagraut í hádeginu, hvorki meira né minna en 2 fulla diska. Það var mjög áhugavert því á einu bretti komu gamlir taktar sem við höfðum ekki séð mánuðum saman. Allt í einu lá hún á gólfinu grenjandi yfir því að þurfa að fara á klósettið en gat það ekki því eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Þetta kast tók hálftíma en minnti okkur á það sem hafði verið daglegur viðburður, jafnvel oft á dag.

Það er þvílíkur munur á henni og yndisleg tilfinning að geta gert eitthvað til að bæta líðan barnsins síns. Ég er svo þakklát fyrir að hefa lesið söguna hans Sindra á netinu á sínum tíma og vonandi að ég hafi líka vakið einhverja til umhugsunar, þá er tilgangnum náð.

Ekki hika við að hafa samband ef einhverjar spurningar vakna eftir lesturinn.

Kær kveðja, Oddrún

Sjá fleiri færslur: MATUR LÆKNAR 

.

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.