Fáskrúðsfjörður – útskýring á nafninu

Fáskrúðsfjörður nafnið fáskrúðsfirði Vémundur landnámsmaður dr. Paul á Fögrueyri fagraeyri hvalstöð Austast fyrir öllu landi jónas hallgrímsson dalir jón páll ólafsson fráskrúðsfjörður ólafur indriðason páll vídalín Fáskrúðsey landnáma snæland skálavík vattarnes fáskrúðsfjarðar páll jónsson prestur kolfreyjustaður skrúðsey skrúður skrúðsey björn magnússon skrúð brimnes sandfell óðinn logi daníel ármannsson jóna kristín sigurðardóttir naddoddur halaklettur reyðarfjall æðey andey búðir digritindur örnefni
Horft út Fáskrúðsfjörð. Myndin er tekin fremst á Digratindi. Í fjarðarmynninu er Skrúður og vinstra megin við hann Reyðarfjall. Mynd Daníel Ármannsson

Fáskrúðsfjörður – útskýring á nafninu

Í Landnámu kemur fram að Vémundur hafi numið Fáskrúðsfjörð, sú ágæta bók greinir einnig frá för Naddodds til Íslands. Þar er frá því sagt, að þeir skipverjar gengju á Reyðarfjall að svipast um eftir mannabyggðum. Reyðarfjall er nær yst á fjallgarðinum milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar 597 m hátt.  Þar hefur því samkvæmt þessari frásögn verið þreytt hin fyrsta fjallganga norrænna manna á Íslandi, og í því landi, sem nú tilheyrir Fáskrúðsfirði sennilega á Vattarnesi eða í Skálavík. Naddoddur kallaði landið Snæland, því að snær féll á fjöll, „er þeir sigldu brott af landinu”. Sagan er trúleg, víðsýni mikið af Reyðarfjalli og algengt, að fjöll hvítni á úthallandi sumri, þó autt sé í byggð. Ekki skilur Naddoddur eftir sig annað á Íslandi en þetta eina örnefni sem enn lifir, þó ekki beri landið það eins og kunnugt er.

FÁSKRÚÐSFJÖRÐUR — ÖRNEFNI —

🇮🇸 🇫🇷

Það er bæði gaman og fróðlegt að velta fyrir sér tilkomu og uppruna nafnsins Fáskrúðsfjörður. Vart er hægt að segja að einhver þeirra sé réttari en önnur, þó geta allir verið sammála um að nafnið á firðinum er tengt eynni Skrúð í fjarðarmynninu.
Þegar fólk nálgast Fáskrúðsfjörð landleið eða af hafi í björtu veðri verður eyjan Skrúður það fyrsta sem augað nemur þar sem hún rís frá haffleti tignarleg og litrík. Það er ekki að undra að fjörðurinn inn af sæki nafn til hennar. Í kirkjuskrá Páls Jónssonar prests á Kolfreyjustað, sem gerð var um aldamótin 1200, kemur fram að fjörðurinn hafi heitið til forna Skrúðsfjörður.

Reyðarfjall er hægra megin á myndinni. Landnámsmaðurinn Naddoddur gekk á fjallið og gaf landinu nafnið Snæland. Mynd Óðinn Logi Þórisson

Ef til vill hefur Skrúðurinn áður fyrr heitið Fáskrúð eða Fáskrúður, samkvæmt Páli Vídalín lögmanni í skýringum yfir fornyrði Lögbókar. Fyrrihluti nafnsins er þá ef til vill nafnorðið Fá –glans eða gljái- og er þá vísað til sjávarlöðurs við eyjuna. Eitt örnefni með þessum fyrri lið er Fáskrúðsey, sem ekki hefur verið staðsett en gæti átt við um Skrúð. Páll Vítalín nefnir í áðurnefnum skýringum skerið Fáskrúð fyrir Vatnsnestanga í Húnavatnssýslu.

Björn Halldórsson í Sauðlauksdal segir í skrifi sínu frá 1791:  „Fáskrúð eru örnefni hér á landi sem merkja það að vorir forfeður sáu fátt prýðilegt þar um kring.  Þegar menn sjá nokkuð fyrir sér sem þeim líst illa á svo sem kann að vera smíði eða klæðaföt, þá segja menn: Þetta er fáskrúð. Þegar menn sjá lörfóttan og tötróttan er sagt: „mikið fáskrúðleg skepna er þetta”.

Fáskrúðsfjörður eða Frá-skrúðsfjörður finnst sem ritháttur nokkuð jöfnum höndum á 19. öld. Í Austfjarðalýsingu skráðri um 1856 af Guttormi Pálssyni presti í Vallanesi 1775-1860 og áður lengi á Hólmum í Reyðarfirði ritar hann eingöngu Fáskrúðsfjörður. Ólafur Indriðason prestur á Kolfreyjustað 1796-1861 notar hins vegar Fá-ritháttinn í sóknarlýsingu frá 1841en getur eftirfarandi: „Hann skrifast af mörgum Fráskrúðsfjörður en í Landnámu nefnist hann hinsveginn og mun það réttara þótt óljósara þyki hvörsu það er tilkomið…”  Hér sem oft endranær falla menn fyrir Landnámu-rithætti.

Í Skrúð er fuglager, sem heldur honum grænum vetur sem sumar. Mun nafnið af því dregið. Hins vegar hefur mér komið til hugar, að Fáskrúðfjörður gjaldi Skrúðsins og hafi verið svo nefndur af landnámsmanni, sem ef til vill kom í fjörðinn snemma vors eða um vetur og þótti strendur hans fölar og fáskrúðugar í samanburði við grænan Skrúðinn. Er þó langt frá því, að Fáskrúðsfjörður sé fáskrúðugri en aðrir firðir austanlands, og dalirnir upp af honum eru bæði grösugir og skógi vaxnir.

Nafnið Fáskrúðsfjörður gæti allt eins verið af gelískum uppruna, auðskilið og viðeigandi, nefnilega Fa-sruth (Fa-srúþ).  Fa er eins konar staðaratviksorð og merkir við eða innan við, struth þýðir straumur eða röst.  Fasruth (Fasrúþ) þýddi þá „við röstina”.  Þarf þá litlu að breyta til að fá Fáskrúð og Fáskrúðsfjörð, en Skrúðurinn héti að réttu “Straumey”.

Jónas Hallgrímsson

Austast fyrir öllu landi
af einhvurjum veit ég stað,
fjalleyju grænni og góðri;
getið þér hvur muni það?

Hún heitir Skrúður, og skýlir
Skrúðsbónda, öldnum hal;
úti fyrir Fáskrúðsfirði
þú finnur það eyjarval.

Og hvunær sem eg hugsa
um hrútinn og pækilinn,
mér er sem eg sjái’ hann Gísla
og hann séra Ólaf minn.

Án efa eru vísur Jónasar Hallgrímssonar – Austast fyrir öllu landi – kunnastar af því sem ort hefur verið um eyjuna Skrúð, úti fyrir Fáskrúðsfirði. Nokkrar vangaveltur hafa verið uppi um hvort Jónas hafi komið í Skrúðinn. Þjóðskáldið Jón Ólafsson sá um útgáfu ljóðmælanna og ritar formála. Hann ólst upp á Kolfreyjustað, sonur séra Ólafs Indriðasonar.
Í Ljóðmælum Jónasar, er gefin skýring á síðustu vísunni og um leið fullyrt að Jónas hafi farið út í Skrúð og séra Ólafur með honum, og annars staðar er einnig talið að Gísli læknir Hjálmarsson hafi verið með í för. Skýrast þá um leið mannanöfnin í vísunni, Gísli og séra Ólafur.

Í sóknarlýsingu segir „þangað er sauðfé sett, og verður það svo vænt og feitt að firnum sætir. Í rosum skvettist sjór hátt upp í Skrúð og fyllir dældir á klöppum og verða af tjarnir. En er sjórinn gufar upp af sólarhita, verður salt eftir í skálunum.  Síðast áður alþurrt er úr skál, er sjórinn í henni orðinn svo seltumegn sem saltpækill.”
Jónas sá í Skrúð pækil þennan og hrút einn ferlega mikinn.
Gísli sá sem nefndur er er Gísli læknir Hjálmarsson sem ólst uppá Kolfreyjustað. Hann var samtíða Jónasi í Höfn og vinur hans, og mun hafa sagt honum margt um Skrúðinn.
Vafalaust eru þessar skýringar réttar, en hins vegar verður að draga í efa að Jónas hafi farið út í Skrúð eins og Jón Ólafsson fullyrðir og raunar yfirbragð og orðalag vísnanna, einkum þeirrar síðustu, gefur til kynna, því að engu er líkara en hún sé bundin endurminningu og eigin reynslu.

Jónas mun einu sinni hafa komið til Austurlands, það var sumarið 1842, er hann fór í rannsóknarför frá Reykjavík og austur sýslur og allt norður til Vopnafjarðar. Dagbók hans er prentuð í heildarútgáfunni af verkum Jónasar sem kom út á fjórða áratugnum. Þar rekur Jónas vendilega þá leið sem hann fór dag frá degi og gerir allnákvæma grein fyrir athöfnum sínum hvern dag. Í dagbókunum tekur hann fram að hann geti sparað sér allar lýsingar á Fáskrúðsfirði, því sóknarpresturinn þar hafi í ágætri lýsingu fullnægt kröfum þar um. Hann gistir í Dölum í Fáskrúðsfirði og daginn eftir fer hann yfir Stuðlaheiði í Stuðla og síðan rakleitt um Hólma og Eskifjörð í Silfurlæk í Helgustaðahlíð að rannsaka silfurbergsnámuna. Þar er hann önnum kafinn og gerir grein fyrir störfum sínum hvern dag. Þau eru með þeim hætti að varla er hugsanlegt að hann hafi skroppið í Skrúð og alveg óhugsandi að hann hafi ekki getið slíkrar ferðar í dagbókinni, þegar á það er litið hver ítarleg hún er og vandlega gerð.

Þjóðskáldið Jónas minnist hvergi í dagbókinni á Skrúð. Þess vegna verður að telja nokkuð öruggt að um missögn sé að ræða hjá Jóni Ólafssyni að hann hafi farið í Skrúðinn, heldur muni kvæðið bundnar frásagnir og lýsingar annarra.

 

Fagraeyri við sunnanverðan Fáskrúðsfjörð. Í fjarðarmynninu er Skrúður og til vinstri er Halaklettur. Mynd Óðinn Logi
Þegar gluggað er í gömul gögn um Fáskrúðsfjörð kemur eitt og annað skondið í ljós. Í bók Ásmundar Helgasonar frá Bjargi, Á sjó og landi er fjallað um hvalveiðistöðvar á Austurlandi fyrir rúmlega öld. Þar segir:
„Síðastur byggði dr. Paul á Fögrueyri við Fáskrúðsfjörð. Sú stöð starfaði í fá ár og mun aldrei hafa borið sig vel. Dr. Paul var sagður Þjóðverji. Vel mætti fá mig til að trúa því eftir sögn þeirra sem höfðu nokkur skipti við hann, að hann hefði verið nákominn ættingi Adólfs Hitlers. “
Manntalið frá 1703

Þegar manntalið frá 1703 er skoðað kemur í ljós að á 29 bæjum í Fáskrúðsfjarðarhreppi búa 232, þar af eru 35 sveitarómagar. Á jörðinni Búðum, þar sem þorpið er nú, búa þrír.
Næsta manntal hér á landi var gert rúmum 130 árum síðar, árið 1835. Þá er búið á 24 bæjum, alls 271, þar af 7 niðursetningar. Á afbýlinu Búðum býr ein fjölskylda, alls tíu manns.
Gríðarleg fjölgun verður á Búðum þegar manntalið 1901 er gert. Þá er orðið til allmyndarlegt þorp með 31 íbúðahúsi og 272 íbúum.

Seytjánda öldin hefur verið kölluð Galdrabrennuöld. Galdrabrennur stóðu yfir hér á landi frá 1625 til 1685 en galdratrú og galdraóttinn miklu lengur.  Brenndir voru 22 menn fyrir galdur og 3 líflátnir á annan hátt.
Austurland var mikið til laust við þennan ófögnuð. Þar kom ekki til, svo til opinbers málareksturs kæmi, nema tvö slík mál, en sjálfsagt hefur verið talsvert um það, að menn væru grunaðir um kukl og fjölkynngi. Þó lá galdratrúin og galdraóttinn þeim mun léttar á mönnum austanlands en í öðrum landshlutum, að flóttamenn undan galdradómum og galdrakærum, eins og Jón lærði og Galdra-Imba, gátu fengið þar griðastaði.
Árið 1681 kom fyrir Lögréttu ómerkilegur og óvenjulegur galdragrunur úr Fáskrúðsfirði.  Það var þannig vaxið, að kaupmaðurinn í Reyðarfjarðarkaupstað, Marteinn Níelsson að nafni, hafði komizt yfir „buddu með galdrablöðum og vondri fyrirsögn” eins og það er orðað, hjá manni að nafni Einar Kollason. Einar bar fram, að hann hefði fengið blöðin frá manni, Snjólfi Eiríkssyni að nafni.  Áður en málið kom fyrir Lögréttu, hafði það komið fyrir dóm Jóns sýslumanns Þorlákssonar á Kolfreyjustaðaþingi um vorið. Hafði hann dæmt Snjólfi synjunareið fyrir að hafa afhent skjölin til Einars, en Snjólfur var þá ekki búinn að vinna eiðinn. Lögrétta samþykkti gerðir Jóns í málinu og fól honum að dæma hvorn þann aðilann, sem ábyrgð bæri á galdrablöðunum í hæfilega refsingu. Um málalyktir er ókunnugt.
Þetta mun vera eina galdramálið Austanlands.

 

Reyðarfjall, Halaklettur, Æðarsker, Andey og Skrúður. Mynd Óðinn Logi
Eyjan Skrúður er úti fyrir Fáskrúðsfirði. Skrúður rís hæst 161 m yfir sjó. Hún er víðast hvar sett misháum þverhníptum björgum neðan til, en grasi vaxin að ofan. Til eru heimildir um mann er hugðist setjast í Skrúði og leitaði allákaft eftir því. Sá hét Björn Magnússon er nefndi sig Skrúð, hann var frá Brimnesi í Fáskrúðsfirði. Björn var um skeið í þjónustu Dana við verslunarstörf á Austurlandi og fékkst m.a. við að leiðbeina skipum milli hafna. Veturinn 1786-87 var hann í Kaupmannahöfn og leitaði þá fast eftir þessari staðfestu með ýmusm rökum er koma fram í bréfaskriftum hans til kóngsfeðga, Kristjáns VII og Friðriks prins, og rentukammersins. Í þessum bréfum rökstyður hann beiðni sína með ýmsu móti. Í fyrsta lagi telur hann sig ekki hafa möguleika á að stofna til hjúskapar nema hann hafi jarðnæði, þar eð breyttir verslunarhættir Dana muni hafa í för með sér að hann missi atvinnu þá er hann hafði áður. Í öðru lagi lýsir hann möguleikum þeim sem í Skrúð séu til búskapar, tryggur útigangur fyrir fé, stutt til miða og nytjar af fugli. Og í þriðja lagi reynir hann að telja viðtökumönnum bréfa sinna trú um að full þörf sé á að hafa hafnsögumenn til leiðbeiningar við Austfirði í þoku og dimmviðrum, bendir á reynslu sína í þeim efnum og staðhæfir að hvergi sé slíkur maður betur staðsettur en einmitt í Skrúð.
Næst tekur Stefán amtmaður Þórarinsson á Mörðuvöllum við þessu erindi til frekari athugunar. Amtmaður var, eins og reyndar hinir dönsku embættismenn er um málið fjölluðu, hlynntur því í fyrstu að málið næði fram að ganga, en þeir er hagsmuna áttu að gæta í eynni, svo sem ábúandi Vattarness, Guðmundur Pálsson umboðsmaður Skriðuklaustursjarða og séra Jón Stefánsson í Vallanesi, snerust harðlega gegn. Jón Sveinsson sýslumaður veitti þeim lið, taldi hann umsókn Björns furðulega því að Björn væri nákunnugur eynni og vissi vel um þau vandhæfi öll sem þar væru á búsetu. Björn mundi í raun og veru að vera að sækjast eftir nytjum eyjarinnar í eggjum og fiðri, en þó líklega ekki nein alvara með þessari fyrirætlun.
Þessu sérstæða máli lauk með því að embættismenn í rentukammerinu féllust á afstöðu amtmanns og sinntu ekki frekar erindi Björns.
.
FÁSKRÚÐSFJÖRÐURKOLFREYJUSTAÐURBRIMNESÞJÓÐSÖGUR

 ÖRNEFNI —

🇮🇸 🇫🇷

.
Brimnes í Fáskrúðsfirði þaðan sem Björn Magnússon Skrúð kom. Mynd Jóna Kristín Sigurðardóttir

— FÁSKRÚÐSFJÖRÐUR, ÚTSKÝRING Á NAFNINU —

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.

Fyrri færsla
Næsta færsla