Annska og Úlfur með indverska/marokkóska veislu

Úlfur Þór, Anna Sigríður og Hugi Hrafn ísafjörður hamraborg tagine tagina Butter Chicken Murgh Makhani. einfaldur indverskur kjúklingur marokkó indland marokkóskur matur marokkóskt lamb Naan brauð Marokkóskur lambapottur
Úlfur Þór, Anna Sigríður og Hugi Hrafn

Annska og Úlfur með indverska/marokkóska veislu

Á Ísafirði búa hörkuduglegu hjónin Úlfur og Anna Sigríður, þau eru bæði tvö allt í öllu. Hann rekur, ásamt Gísla bróður sínum, Hamraborg og ýmislegt fleira og Anna Sigríður, Annska, leysir alls konar verkefni með bros á vör. Hjónin eru sem einn maður í eldhúsinu, samstíga í að galdra fram veislumat. Í veislu hjá þeim í vikunni fengum við annarsvegar marokkóskt lamb og hins vegar indverskan kjúklingarétt – hvort tveggja afar ljúffengt.

ÍSAFJÖRÐURMAROKKÓINDLANDVEISLAMATARBOÐLAMBKJÚKLINGUR

.

Marokkóskur lambaréttur t.v. og indverskur kjúklingur til hægri.
Marokkóskur lambapottur

 

Marokkóskur lambapottréttur

Ef þið eigið tagine pott er best að gera þessa uppskrift í henni. Ég á hinsvegar ekki slíkt svo ég notaði steikarpott sem bæði er hægt að steikja og sjóða í.

1 msk ólífuolía
1 msk smjör
2 msk saxaðar möndlur (ég notaði með hýði)
2 saxaðir rauðlaukar
4 marin hvítlauksrif
2 msk fínt saxað engifer (eða engifermauk)
Klípa af saffranþráðum
2 kanilstangir
1 msk malaður kóríander (krydd)
800 gr lambakjöt í teningum
Vatn
6 meðalstórar gulrætur saxaðar í bita
10-12 döðlur
10-12 þurrkaðar apríkósur (ég nota þessar þéttu appelsínugulu)
Börkur af einni appelsínu
1 lítil sæt kartafla skorin frekar gróft
2 msk hunang
1 tsk Ras el Hanout
Salt/Pipar

Upprunalega uppskriftin er með aðeins meira kjöti en engu grænmeti öðru en rauðlauknum. Ég hinsvegar vil hafa grænmeti í flestum mínum réttum svo ég bætti því við. Þetta er eitthvað sem má alveg leika sér með. Að sama skapi eru mataruppskriftir í mínum huga oftast viðmið en ekki regla. Ef ég veit að mér finnst eitthvað tiltekið krydd sérlega gott þá set ég extra af því. Vilji ég matinn sterkari eða sætari geri ég það sem þarf til þess. Það er reyndar þannig í dag að það er fullkomin hending ef ég fylgi uppskriftum yfirleitt, svo það var talsvert átak að elda svona uppskriftarmat og í tilfelli kartaflnanna þá var ég bara alveg búin með uppskriftaþolið og gerði bara eitthvað.

Aðferðin við eldamennsku þessa réttar er sú að gott er að byrja að leggja möndlurnar í sjóðandi vatn til að mýkja þær. Ég gerði það ekki svo maður fann alveg bitið. Mér finnst það gott, en ekki endilega allra.

Uppskriftin er sett fram í þeirri röð sem innihaldsefnin fara í hana. Olía og smjör sett í steikarfatið og möndlurnar steiktar. Rauðlaukur steiktur þar til gullinn og þá hvítlauk og engifer bætt útí. Þá er kryddi bætt útí, blandað vel saman og lambakjöti bætt við. Það er steikt á öllum hliðum til að loka því og látið malla í gumsinu í u.þ.b. fjórar mínútur. Þá er vatni hellt yfir þannig að það nái yfir kjötið. Þetta soðið við lágan hita í klukkustund. Að því loknu er gulrótum, döðlum, apríkósum, sætum kartöflum og berki af appelsínum bætt úti og látið malla í 20 mín.

Lokaskrefið er að bæta hunanginu og Ras el Hanout kryddinu (sem fæst hér á landi í Bónus til dæmis) út í kássuna. Ef hún verður of þétt er hægt að bæta við vatni. Ferskum kóríander bætt út á í lokin. Ég hef hann alltaf á borðinu svo hver og einn geti fengið sér það magn sem þau óska.

.

Einfaldur indverskur kjúklingur

Einfaldur indverskur kjúklingur

Ég hreinlega elska indverskan mat! Hugmyndin var að vera bara með indverska rétti í matarboðinu en svo finnst mér lamb og döðlur fara svo fullkomlega saman að ég varð að hafa þann rétt annarsstaðar frá þar sem Indverjar nota iðulega ekki döðlur í matargerð. Hvað mig varðar þá er ég allskostar óhrædd við fjúsíon og marokkóskur matur fer ljómandi vel saman með indversku meðlæti, svo ég hvet ykkur til að vera óhrædd við að blanda saman ólíkum tegundum matargerðar sýnist ykkur svo. Í versta falli verður það vont og þið gerið það ekki aftur með þeim hætti.

Þessi réttur er einn af frægari indversku réttunum og ef þið farið á indverska veitingastaði getið þið verið nokkuð viss um að finna þennan rétt sem upp á ensku heitir Butter Chicken eða á upprunamálinu Murgh Makhani.

¾ bolli smjör
1 stór eða 2 litlir laukar saxaðir fínt
1200 gr beinlaus kjúklingur í teningum (mér finnst best að nota bringu í þetta)
4 hvítlauksrif söxuð eða pressuð
2 msk garam masala
1 msk cumin
1 msk túrmerik
1 msk malaður engifer
Salt og pipar eftir smekk
¼ tsk cayenne eða meira ef þið viljið hafa réttinn sterkari
1,5 bolli rjómi
1 dós tómatsósa (t.d. frá Hunts – ekki tómatsósa í flösku eins og þið mynduð nota á pylsuna)

Aðferð:
Einn þriðji af smjörinu settur í stóra pönnu eða þykkbotna pott

Laukurinn steiktur á miðlungsháum hita þar til hann er tekinn að brúnast (ca 5 mín). Hrært reglulega. Kjúklingi bætt við og steikt í um 5 mínútur eða þar til hann er eldaður á öllum hliðum. Hvítlauk bætt við og steikt í u.þ.b. 1 mínútu. Öllu öðru kryddi bætt við og öllu blandað vel saman. Restin af smjörinu sett út í og það brætt. Rjómanum og tómatsósunni bætt út í, hrært og og soðið í 10 mín þar til sósan hefur þykknað. Ef sósan er enn of þunn má sjóða hana lengur. Smakka og bæta við salti, pipar, cayenne ef þarf. Ef þið viljið sæta réttinn má bæta við smá hunangi.

Meðlæti:
Soðin basmati hrísgrjón. Ég leik mér stundum með að bæta einhverjum kryddum út í grjónin en þegar boðið er upp á tvo bragðmikla rétti sem kitla bragðlaukana á ólíkan máta er gott að hafa frekar hlutlaust meðlæti.

Rajita

Rajita. Þarna er ég alveg hætt að fylgja uppskrift og geri bara það sem mér sýnist byggt á að hafa áður fylgt uppskrift. Í þetta sinn var ég með:

Stóra dós af grískri jógúrt frá Örnu
Væna lúku af ferskri myntu saxaða smátt (nota bara blöðin ekki stilkana)
¾ agúrku rifinni á rifjárni
Safi úr hálfri stórri sítrónu (mjög safarík)
1-2 msk hunang

Öllu blandað saman og kælt

Naan brauð

Naan brauð

Ég er ekki frábær í gerbakstri en mér finnst naan-brauðið best með geri (ekki lyftiduft) og hef ég nú komið naanbrauðsgerðinni yfir á Úlf. Af fenginni reynslu ráðlegg ég ykkur að nota EKKI pönnukökupönnurnar ykkar í þetta þar sem þær geta farið illa. Ekkert mál að steikja brauðið á venjulegum steikarpönnum.

2 bollar hveiti
½ bolli hrein jógúrt
6-8 msk hituð mjólk
2 msk olía eða brætt smjör
2 tsk sykur
½ tsk salt
¾ tsk ger

Deigið látið hefast í 1-2 klukkutíma, því skipt í jafnar kúlur sem eru svo teygðar út í 6-8 flatbrauð sem steikt er á pönnu

Hægt er að gera hvítlauksolíu og hella yfir brauðið en annars finnst mér það bara sjúklega gott ylvolgt með smjöri.

Indverskar kartöflur

Indverskar kartöflur

Fyrst sauð ég smáar kartöflur og skar í tvennt að suðu lokinni. Ef hýðið var ljótt fjarlægði ég það, en annars hélt ég þvi.

Ég bræddi smjör og ólífuolíu á pönnu og henti út í allskonar uppáhalds kryddum: garam masala, cumin, hvítlauksdufti, pipar og dass af hinu og þessu og setti svo ca. 2 msk af tómatmauki saman við. Saltaði vel og voila!

ÍSAFJÖRÐURMAROKKÓINDLANDVEISLAMATARBOÐLAMBKJÚKLINGUR

.

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.