Glæsilegt kaffiboð hjá Geigei
Geirþrúður Charlesdóttir, eða Geigei eins og hún hefur alltaf verið kölluð, hefur sett svip á bæinn á Ísafirði svo um munar frá unga aldri. Félagsstörf hafa verið hennar ær og kýr og óhætt að segja að hún hafi komið víða við, hún var einn mikilvægasti hlekkurinn í Tónlistarfélaginu og söng með Sunnukórnum í áratugi, svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur hún gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum, m.a. í bæjarstjórn, en hún var fyrsta konan til að gegna embætti forseta bæjarstjórnar og sömuleiðis var hún fyrsta konan til að vera formaður kjördæmaráðs Sjálfstæðisflokksins í Vestfjarðakjördæmi.
Geigei er alveg milljón, komin á tíræðisaldur, en aldur er sannarlega afstæður í hennar tilfelli, alltaf eldhress og allt svo elegant í kringum hana. Hún er týpan sem virðist vakna með lagt hár og varalit og hlátrasköll. Hún bauð okkur í kaffiboð með gömlum vini, Gunnlaugi Jónassyni, sem hún vann hjá um langan aldur í Bókhlöðu Jónasar Tómassonar. Gulli er litlu eldri, hefur ekki verið síðri sprauta í samfélaginu, og saman hafa þau frá mörgu skemmtilegu að segja, ótrúlegustu ævintýrum sem þau vinahópurinn lentu í á ferðalögum og í menningarlífinu. Tíminn líður ógnarhratt með þeim við glaðværð og sögur af fólki sem lifnar við í frásögnum þeirra, af t.d. gömlu snillingunum Viktor Urbancic, Carl Billich, söngvurunum Guðmundi Jónssyni, Magnúsi Jónssyni, sellóleikaranum Erling Blöndal Bengtson og mörgum fleirum. Stundum tala þau hvort í kapp við annað, svo mikið er fjörið og frásagnargleðin.
Veitingarnar voru ekki af verri endanum, víðfrægu marsipansnúðarnir hennar og franska marengstertan „Fragilité“ (Brothætt) í aðalhlutverki, en hana er skylda að prófa, algjört sælgæti.
— ÍSAFJÖRÐUR — FRAKKLAND — TERTUR — MOKKAKREM — MARENGS — SNÚÐAR — HÚSMÆÐRASKÓLINN ÓSK —
.
Franska tertan með mokkakreminu
4 eggjahvítur
3 dl flórsykur
2 dl möndlumjöl
Mokkakrem
2 1/2 dl rjómi
2 eggjarauður
1/2 dl flórsykur
1 1/2 tsk maísmjöl
100 g smjör
1 tsk vanillusykur
sterkt kalt kaffi
Skraut: 1/2 dl möndluflögur
Stífþeytið eggjahvítur og flórsykur. Bætið möndlumjölinu saman við.
Mótið tvo botna á bökunarpappírsklæddri plötu. Bakið við 100°C í um 20 mín.
Látið kólna.
Mokkakrem:
Þeytið eggjarauður, sykur og maísmjöl vel saman í potti. Látið suðuna koma upp og hellið rjómanum varlega út í og hrærið allan tímann.
Látið suðuna koma upp og takið af eldavélinni.
Látið kólna en hrærið í af og til til að forðast skán og að kekkir myndist.
Bætið vanillusykri, smjöri og köldu kaffi saman við og hrærið vel saman.
Setjið 3/4 af kreminu á botninn, hinn botninn yfir og restina af kreminu á.
Skreytið með möndluflögum.
— ÍSAFJÖRÐUR — FRAKKLAND — TERTUR — MOKKAKREM — MARENGS — SNÚÐAR — HÚSMÆÐRASKÓLINN ÓSK —
.