Þuríður Sigurðardóttir býður til kaffisamsætis. Í þá gömlu góðu daga þegar Sumargleðin fór um landið og skemmti fórum við alltaf í yfirfullt félagsheimilið heima og veltumst þar um af hlátri. Söngkona sveitarinnar Þuríður Sigurðardóttir hló líka alltaf manna hæst og skemmti sér greinilega mjög vel með „köllunum" í Sumargleðinni. Þuríður hefur gert ýmislegt fleira en syngja, verið í fjölmiðlum og flugfreyja svo eitthvað sé nefnt. Um aldamótin lét hún stóra drauminn rætast og lærði myndlist og útskrifaðist úr Listaháskólanum. Auk þess að mála undurfögur listaverk heldur hún námskeið á vinnustofunni sinni. Á dögunum hitti ég Þuríði og nefndi við hana hvort hún vildi vera gestabloggari og baka kannski eina köku og gefa uppskrift að henni. Söngkonan glaðlega hugsar stórt eins og sjá má á myndunum og bakaði ekki bara eina köku - hún hélt glæsilegt kaffisamsæti ásamt eiginmanni sínum Friðriki Friðrikssyni.