Auglýsing
Hótel Glymur Ísland hvalfjörður margrét rósa einarsdóttir englendingavík hvalfjarðarsveit bjarteyjarsandur síldarmannaleið gönguleiðir leggjabrjótur glymur hæsti foss á íslandi hæsti foss landsins hlaðir hernámssetrið
Með Margréti Rósu vert á Hótel Glym

Við lögðum af stað frá Reykjavík í himnesku veðri. Eins og stundum oftar barst talið að breytingunni á landinu á sl. áratugum, jafnvel fáeinum árum. Um það vitnar hin skemmtilega mynd, Með allt á hreinu, þar sem allt er meira og minna bert, en nú er gróðurfar allt annað.

Við stefndum á Hvalfjörð, sem var ekki alltaf vinsæll þegar keyrt var suður og eftir var að þræða fyrir fjörðinn, þar til sást loks til Reykjavíkur í Tíðaskarði. Hvalfjörðurinn er hins vegar fullur af perlum, fjölbreyttur og umlukinn glæsilegri náttúru og ríkur af sögu.

Við skoðuðum Hernámssetrið og áttuðum okkur á því að það þyrfti sérstaka færslu: HERNÁMSSETRIÐ, svo stórkostleg upplifun var það.

HERNÁMSSETRIÐ

Þá heimsóttum við hjónin Guðmund og Arnheiði á Bjarteyjarsandi, en þar er mjög spennandi starfsemi og tjaldstæði og því fékk hún sömuleiðis sérstaka færslu: BJARTEYJARSANDUR

Bjarteyjarsandur

Í Hvalfirði eru margir gististaðir, en við gistum tvær nætur á Hótel Glym, sem var dásamlegt eins og áður. Það er greinilegt að landinn er að taka við sér. Það var eins og bílasala fyrir utan hótelið, svo margir voru bílarnir. Nú þurfum við nefnilega að leggjast á eitt til að fleyta ferðaþjónustunni yfir erfiðan hjalla, þar til þessi undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar tekur við sér á næsta ári. Það er stórkostlegt tækifæri að endurnýja kynnin af landinu sínu, án þess að helstu ferðamannastaðir séu yfirfullir af ferðamönnum. Þetta verður kannski eina sumarið sem við eigum þess kost.

Við fengum góðan mat á Hótel Glym. „Mikil alúð við þessa matargerð,“ sagði Páll. Yfir matnum hóf hann að fara með vísu um fossinn Glym. Það er með ólíkindum hvernig vísur festast í huga hans, en þessa dýrt kveðnu vísu, eftir Sigvalda Jónsson Skagfirðingaskáld, hafði hann lesið í Þjóðviljanum fyrir 58 árum:

Á þann himinháa Glym
hver sem skimar lengi
fær í limu sundl og svim
sem á rimum héngi.

HVALFJÖRÐURHÓTEL GLYMUR — MARGRÉT RÓSA — FERÐAST UM ÍSLAND –

Hótel Glymur
Koníaksbætt villisveppasúpa, ofnbakaður Brie með hunangslögðum bláberjum, bleikja með seljurótamauki og hunangssinnepssósu og þorskhnakki með spínati og villisvepparisottó.
Hvítsúkkulaðimús með hindberjacoulise og saltkaramellusósu, súkkulaðibrownie með vanilluís og berjamosaic.

Hér eftir rekjum við leið okkar frá Botnsdal út fjörðinn norðan megin, ef þið viljið verða samferða í bílnum:

Glymur er hæsti foss landsins og er stórkostlegt sjónarspil, þótt ekki sé hann vatnsmikill. Þegar keyrt er inn í Botnsdal er um þriggja tíma ganga fram og til baka frá því þar sem vegurinn endar.

Glymur í Botnsá er 198 metrar. Botnsá rennur úr Hvalvatni sem er annað dýpsta stöðuvatn landsins. Gilið sem Glymur fellur um er þröngt og fossinn sést ekki vel. Gönguleiðin fram og til baka tekur um þrjár klukkustundir. Leggjabrjótur er falleg gönguleið milli Hvalfjarðar og Þingvalla.
Séð út Hvalfjörð frá Botnsdal.

Margar fleiri þekktar gönguleiðir er um að ræða, t.d. Síldarmannagötur, en nafnið vísar til þess að Borgfirðingar hafi farið snemma til síldveiða í Hvalfirði.

Síldarmannagötur. Þessi myndarlega varða er við upphaf gönguleiðarinnar milli Botnsdals og Borgarfjarðar. Síldarmannagatna er getið í Harðarsögu og bendir nafnið til þess að Borgfirðingar hafi farið til síldveiða eða síldarkaupa suður í Hvalfjörð.

Það er alltaf gaman að fá krakkana til að leita að gatinu í Þyrli. Þar sem við höfum varðveitt barnið í okkur, gerðum við það auðvitað líka.

„Gatið“ í Þyrli

Í Harðarsögu og Hólmverja er sagt frá frækilegu sundi Helgu Haraldsdóttur úr Geirshólma til lands í Hvalfirði. Segir svo frá í sögunni: „Helga er nú í hólminum og þykist vita nú allar vælar og svik landsmanna; hún hugsar nú sitt mál. Það verður nú hennar ráð, að hún kastar sér til sunds og leggst til lands úr Hólminum um nóttina og flutti með sér Björn, son sinn, fjögra vetra gamlan, til Bláskeggsár, og þá fór hún móti Grímkatli, syni sínum, átta vetra gömlum, því að honum dapraðist sundið þá, og flutti hann til lands. Það heitir nú Helgusund.“

Geirshólmi
Brúin yfir Bláskeggsá er frá 1907 og er elsta steinsteypta brú á landinu utan Reykjavíkur. Bogi hennar er tæpir 7 metrar og breiddin 2,8 m.

Við Hlaðir er Geldingadragi, sem var stundum farinn til að stytta sér leið upp í Borgarfjörð. Bergþór rifjaði upp þegar fjölskyldan fór á Skoda upp í Hvítársíðu um Dragann og bíllinn drap á sér úti í miðri á. Júlíana, amma hans, sat í framsætinu og þagnaði meðan pabbi óð út í vatnið til að sækja hjálp. Allt fór þó vel að lokum. Á Hlöðum er einmitt Hernámssetrið.

Flestir eiga minningar tengdar ferðum um landið, en Bergþór hefur sérstaka tengingu við Saurbæ í Hvalfirði, þar sem hann fór með hlutverk höfuðskáldsins sr. Hallgríms Péturssonar í óperunni Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarson. Passíusálmarnir hafa verið þýddir á 52 tungumál og á hverju sumri kemur fólk hvaðan æfa að úr heiminum í pílagrímsferðir til að skoða Saurbæ.

Saurbæjarkirkja (Hallgrímskirkja) á Hvalfjarðarströnd

Auk þessa má geta þess að stundum höfum við farið að tína krækling í Hvalfirði, þ.e. í mánuðum sem ekki hafa r í nafninu sínu, s.s. maí-ágúst, en við eigum líka leynistað fyrir berjatínslu, en þar stoppar enginn og við mokum bókstaflega upp. Eiginlega er lykilatriði í berjatínslu að fara ekki þangað sem margir bílar stoppa, eins og í Botnsdal.

Á heimleiðinn gerðum við stutt stopp á Kaffi Kjós við Meðalfellsvatn og fengum okkur grænmetisborgara. Kaffihúsið stendur á einstklega góðum stað með góðu útsýni yfir vatnið

HVALFJÖRÐURHÓTEL GLYMUR — FERÐAST UM ÍSLAND –

Við ferðaþríeykið viljum gjarnan heyra frá ferðaþjónustufólki

Auglýsing