Þegar frönsku skúturnar Moette og Daniel strönduðu við Eyri

Þegar frönsku skúturnar Moette og Daniel strönduðu við Eyri Fáskrúðsfjörður franskir sjómenn frakkneskir fransmenn oddný þorsteinsdóttir
Þegar frönsku skúturnar Moette og Daniel strönduðu við Eyri

ÞEGAR FRÖNSKU SKIPIN MOETTE OG DANIEL STRÖNDUÐU VIÐ EYRI Í FÁSKRÚÐSFIRÐI ÁRIÐ 1910

Áhöfnin á Múlabergi fékk upp um fjögurra metra trévirki sem talið er úr franskri skútu.
Áhöfnin á Múlabergi  SI 22 fékk upp um fjögurra metra trévirki sem talið er úr franskri skútu.

Á MBL.is er sagt frá því að áhöfnin á Múlabergi SI 22 hafi fengið upp um fjögurra metra langt trévirki sem talið er úr franskri skútu þegar það var við rann­sókn­ar­veiðar í Fá­skrúðsfirði. Finnur skipstjóri sagði mér að gripurinn hafi komið upp út af bænum Eyri sem er við sunnanverðan Fáskrúðsfjörð. Í maí árið 1910 strönduð tvær franskar skútur við bæinn á sama sólarhringnum.

FRANSKIR SJÓMENNFRAKKLANDFÁSKRÚÐSFJÖRÐUREYRIFRANSKI GRAFREITURINN

.

Hér er frásögn Oddnýjar Þorsteinsdóttur (1893-1983) frá Eyri í Fáskrúðsfirði frá þegar skúturnar Moette og Daniel strönduðu.

Sunnudagsmorguninn 8. maí 1910 var svo þreifandi bylur, að ekki sá nema niður á hólsbrúnina neðan við íbúðarhúsið, og er það þó ekki yfir 100 m leið.  Veðurhæðin var svo mikil, að það var illstætt.  Þetta var það eina sem ég vissi gerast utan húss, þangað til tveir Fransmenn komu heim af skútu, sem strandað hafði á eyraroddanum neðan við  túnið.  Annar þeirra var drengur, á að giska 11-12 ára gaman.  Hann var holdvotur, mjög kaldur og hryggur og svo feiminn, að ætlaði ekki að fást til að fara úr rennandi blautum fötunum.  En mamma lét það ekki á sig fá, heldur afklæddi hann og hjálpaði honum í þurr föt.

Klukkan var að ganga 10 um morguninn, þegar þetta gerðist.

Hinn Fransmaðurinn fór undir eins aftur niður að sjó, til þess að hjálpa til við að bjarga fleiri mönnum úr hinu strandaða skipi.  Faðir minn fór með honum.

Skip þetta hét Moette og var frá Pompol.  Þetta var skonnorta, allstór.  Tveir björgunarbátar voru um borð.  Drengurinn var einn þeirra, sem komst með fyrri bátnum á land, en báturinn bjargaðist ekki, því að hann brotnaði við landtökuna.

Þegar skipverjar voru komnir um borð í hinn bátinn, hvolfdi honum við skipshliðina, og þeir sem í honum voru, lentu í sjónum.  Einn þeirra hafði slegist við skipið eða bátinn og rotast.  Öllum sem í bátnum göfðu verið skolað á land.  Einn þeirra var meðvitaundarlaus borinn heim til okkar.  Hann lifnaði bráðlega við, þegar lagðar höfðu verið við hann heitar flöskur og púðar.  En hann lá rúmfastur tvo daga heima hjá okkur.  Bátinn rak síðari daginn á land og var hann óskemmdur.

Þegar þetta gerðist, var orðið það bjart veður, að við sáum þessa atburði að heiman frá okkur.

Faðir minn skildi Fransmennina og gat talað við þá.  Hann sagði þeim, er í land voru komnir, að best væri  fyrir þá, sem enn væru um borð í skipinu, að vera þar kyrrir, því að þarna væri sandbotn, og skipinu engin hætta búin.  En Frakkar trúðu þessu ekki.

Þegar bátur Frakkanna brotnaði í landtökunni, tóku þeir bát, sem Indriði sambýlismaður okkar og frændi átti og ætluðu þeir á honum út í skipið, en hann fauk úr höndum þeirra og eyðilagðist.

Eftir þetta björguðust Fransmennirnir á land á kaðli, sem festur var milli lands og skips.  Höfðu þeir fest línu við dufl og látið það reka til lands, en svo bundið við línuna gildum kaðli.

Auðvitað komu þeir allir, skipverjarnir af Moette, heim til okkar og björguðust við hlýju og aðra aðhlynningu, sem við gátum látið í té.  Ekki nam ég hvað þeir voru margir, en þeir hafa sjálfsagt verið eitthvað yfir 20.

Dauða manninn rak upp á eyrina utan við Ytri-Eyrarána.  Hann var borinn heim og látinn inn í skemmu(geymsluhús) á hlaðinu, aðeins laust frá íbúðarhúsinu.

Það mun hafa verið skömmu eftir hádegi að faðir minn fór fram og niður fyrir bæjarhólinn að gefa lömbunum, sem þar voru til húsa.  Þá er aðkoman þannig, að þar eru engin lömb, en í húsinu eru margir franskir menn.

Faðir minn hélt fyrst að þetta væru menn af hinu strandaða skipi við eyraroddann.  En hann komst fljotlega að því, að svo var ekki.

Þeir gerðu honum skiljanlegt, að skip þeirra væri vestar (innar) með firðinum og að um borð í því væru enn nokkrir skipverjar.

Þegar hann fór nánar að virða þessa menn fyrir sér, kannaðist hann við tvo þeirra og þeir þekktu hann.  Létu þeir í ljós feginleik sinn yfir því að hafa þarna, á svo óvæntum stað, hitt vin sinn.  Annar þeirra kom til hans, faðmaði hann og kyssti.  Þessir menn vissu ekki, að þeir væru svona nálægt mannabústað, eins og þarna kom í ljós.

Skip þeirra hafði rekið svo nærri landi, að þeir gátu vaðið á land.  Undir eins og skipið var strandað, höfðu þessir menn vaðið á land til þess að leita byggðar.  Þeir rákust þá fljótlega á lambhúsið og settust þar að.  Líklega höfðu þeir í fávisku eða af misskilningi hleypt lömbunum út um leið og þeir fóru inn í húsið.

Faðir minn kom heim með þennan hóp þeir voru enn kaldari en þeir sem komið höfðu frá skipinu á eyraroddanum.  Það gekk þess vegna mun seinna að fá í þá það mikinn hita, að líðan þeirra gæti kallast sæmileg.

Veður fór batnandi þegar á daginn leið.

Faðir minn og víst einhverjir af seinni hópnum fóru þá að athuga með skipið, sem þeir voru af.  Þeir fundu það skammt fyrir innan Fremri-Eyrarána, utan við Leynigilsfjöru, en áin rennur framhjá túninu vestan megin bæjar.

Með kaðli frá skipinu, gátu þeir sem í því voru komist á land án þess að blotna, því að kaðallinn var bundinn um háan stein, það hátt ofan við fjörubakkann, að hann svignaði ekki niður sjó, þó að maður færi eftir honum.

Þetta skip hét Daníel frá Dunkerque.  Daníel var mun minna skip en Moette, og á honum voru færri menn, líklega 17-18.  þá hafa næturgestirnir á Eyri verið næstu nótt milli 40 og 50.  Flestir höfðu þeir verið blautir frá hvirfli til ilja.  Það var nógu að sinna innan bæjar hjá okkur.  Allir skilja, hvílíkt annríki skapast við komu sjóhrakinna strandmanna.

Ekki voru aðrir til starfa þarna af kvenfólkinu en við móðir mín og Stefanía Indriðadóttir, þá innan við fermingu.  En svo hjálpuðu pabbi og Jón Árnason, sem mig minnir að væri þá 14 ára.

Það var kuldi, eða allt að þvíillska milli þessara skipshafna.  Einkum bar á því milli yfirmannanna.  Það stafaði víst að því að Moette rak í storminum nóttina áður á Daníel, þar sem bæði skipin lágu á skipalegunni að Búðum í Fáskrúðsfirði ásamt nokkrum fleiri fiskiskipum.  Skipverjar á Daníel héldu því fram, að Daníel hefði ekki lent á rek, ef Moette hefði ekki rekið á hann.  Líklega hefur hinum ekki fundist það vera sín sök.  Við áreksturinn hafði Daníel brotnað ofansjávar, borðstokkurinn o.fl.

Á land fluttu Fransmennirnir með sér vínföng og brauð.  Vínið notuðu þeir óspart til „að taka úr sér hrollinn“ eftir hrakninginn.  Kom að því að sumir urðu örir í skapi af víndrykkjunni og deildu þeir þá óspart og hóflítið um ágreining sinn út af óförum skipa þeirra.  Deildu þá auðvitað skipshöfn gegn skipshöfn.  Þannig var umbúið hjá okkur í aðbúð skipshafnanna, að önnur þeirra hafði aðsetur uppi, en hin niðri í húsinu.  En sumir hásetanna vildu hafa tal af löndum sínum sitt af hvorri skipshöfn, en yfirmenn skipanna hindruðu það, stundum með ómjúkum skipunum og handatiltektnum.

Ekki var þeim dauða gleymt.  Alla nóttina var einhver hjá honum, stundum voru þeir margir þar, einkum frameftir kvöldinu.  Einn af skipverjunum var sonur hans.  Hann mun hafa verið 14-16 ára gamall.  Hann var mjög sorgmæddur yfir föðurmissinum, og þar með sínu aumlega ástandi í ókunnu landi.  En samlandar hans og starfsbræður virtust ekki taka minnstu hlutdeild í kjörum hans.

Við heimafólk vissum það vel, að félagar hins dauða fóru bæði með brauð og vín út í skemmuna, sem líkið var í.  Vaknaði þá forvitni hjá okkur Jóni á að vita, hver meining mundi vera í því.  Þess vegna fórum við að athuga, hverju færi þar fram.  Þá voru þar nokkrir menn, auk sonar hins látna, er sat hnípinn úti í horni.  Sumir voru við líkið, drukku vín og skröfuðu saman, en aðrir rauluðu danslög og virtust kátir vel.  En það sáum við, að við höfuð hins látna var vínglas við hvorn vanga og á andlit hans höfðu þeir stráð brauðmulningi.  Þetta er nú víst ekki trúar- eða þjóðarsiður hjá Frökkum.  En líklega hafa þessi félagar hugsað sem svo, að með þessu tiltektum þeirra mundi hann geta tekið þátt í gleðskap þeirra. Og svo voru þeir orðnir mikið drukknir.

Um leið og við Jón fórum þessa umræddu skemmuför, hafði ég með mér tilbúinn blómvönd og lagði á brjóst hins látna.  Þessara aðgerða minna verðu nánar getið í frásögn þessari.

Á mánudaginn var allgott veður og fluttist þá skipshöfnin af Daníel í skip sitt aftur, og verður hér ekki fleira af henni sagt.

Aftur á móti voru þeir af skútunni, sem strandaði við eyraroddann neðan við túnið, tvær eða þrjár nætur heima hjá okkur.  Að þeim tíma loknum fluttust þeir aftur í skip sitt.  Stuttu síðar náðist það á flot og var ekkert skemmt.

Dauði maðurinn stóð uppi í skemmunni, þangað til að hann var kistulagður og fluttur inn að Búðum til greftrunar í grafreitinn, sem Frakkar höfðu þar.  Sá grafreitur var rétt fyrir utan þorpsbyggðina og var sá staður jafnan kallaður Krossar.  Þetta var afgirtur reitur og mjög vel við haldið, sem var fremur óvenjulegt í þá daga.

Þegar sá látni var kistulagður, var það mótorbátur, sem kom með kistuna frá Búðum. Þessi kista var ómálaður og óheflaður trákassi, úr heilum borðum saman rekinn.

Með bátnum komu héraðslæknirinn á Fáskrúðsfirði, sem einnig var franskur ræðismaður, ræðismaður Frakka frá Seyðisfirði og sýslumaður Suður-Múlasýslu.  Þessir menn komu úteftir til þess að vera við framkvæmdirnar að ná Daníel á flot.  Franskur prestur, er þá dvaldi á Búðum, kom einnig með mótorbátnum.  Hann kom til þess að sjá um kistulagninguna og jarðarför hins látna Fransmanns.  Þar voru einnig viðstaddir allir skipsfélagar hans.  (þegar hann hafði verið fluttur heim til okkar, klæddu félagar hans hann úr blautum fötunum og færðu hann í þurr föt, sem hann var svo jarðaður í).  Ég man, að hann var í dökkum buxum og blárri peysu, þegar hann var kistulagður.

Björn bróðir minn var staddur hjá okkur úti á Eyri þennan dag.  Franski presturinn bað hann, af því að hann skildi frönsku sæmilega vel, að biðja mig að vera við kistulagningu hins franska skipsmanns, taka blómvöndinn, sem ég hafði lagt á brjóst hans, bera hann út úr húsinu og láta aftur á brjóst hans á sama hátt og áður var, þegar búið væri að ganga frá líkinu í kistunni.  Þegar þessu var lokið, sagði presturinn skipsmönnunum að taka í hönd mér og kyssa á hana, sem þeir og gerðu einn eftir annan.  Að því loknu lagði presturinn hægri hönd á höfuð mér og fór með eitthvað, sem ég ekki skildi, en það mun hafa verið Maríubæn, að minnsta kosti nefndi hann oft  Maríu í þessum lestri sínum.  Björn bróðir minn sagði mér, að háttsemi Frakka við mig, væri þakklætisvottur þeirra fyrir aðgerðir mínar við hinn látna.  Það virðist svo, að Frökkunum hafi þótt það virðingarvottur við hinn látna að ég lagði blómvöndinn á brjóst hans.

Þegar þessu var lokið, tók presturinn til greftrunarsiðaathafnar. Það var upplestur á frönsku eða latínu.  Um hálsinn hafði presturinn silkisnúru, sem náði niður fyrir brjóst hans og við hana var festur bleikur silkipoki.  Úr honum tók presturinn litla silfurskeið og með henni tók hann mold úr sama poka og stráði þrisvar sinnum í kistuna og sagði eitthvað við hverja skeið, um leið og hann stráði.  Þegar hann hafði lokið sínum verkum, bað hann Björn bróður minn að biðja mig að signa yfir kistuna, áður en lokið væri látið yfir hana. 

Að því loknu var lagt af stað með hinn látna útlending í kistu sinni.  Þar gekk presturinn í fararbroddi.

                                                              Halldór Pálsson skráði í janúar 1953

Úr bókinni Leiftur frá liðnum árum II. Höf. Jón kr. Ísfeld Hörpuútgáfan 1982

🇫🇷

— ÞEGAR FRÖNSKU SKÚTURNAR MOETTE OG DANIEL STRÖNDUÐU VIÐ EYRI —

🇫🇷

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.