Jarðarberjatiramisu
Helga frænka mín Finnbogadóttir hefur búið í Vínarborg til fjölda ára með Michael sínum og þremur börnum. Þau hjónin buðu í grill og í eftirrétt var þetta einstaklega góða jarðarberjatiramisu, má kannski tala um íslensku skotið tiramisu.
— TIRAMISU — VÍNARBORG — JARÐARBER — FÁSKRÚÐSFJÖRÐUR — LADY FINGERS —
.
Jarðarberjatiramisu
500 gr mascarpone
250 gr skyr (vanillu eða jarðarberja, eða til helminga)
5 msk flórsykur
2 dl rjómi
1 kg af ferskum jarðarberjum (ég notaði 600 gr)
200 gr fingurkökur (Lady fingers)
Hvítt súkkulaði og minta til að skreyta
Hrærið saman mascarpone, skyri og flórsykri. Þeytið rjómann og hrærið varlega saman við. Maukið helminginn af jarðarberjunum með töfrasprota, takið nokkur jarðarber frá í skraut og skerið rest niður í teninga eða sneiðar.
Leggið helminginn af fingurkökunum í form (ca. 24 x 18 cm), setjið 3-4 msk af jarðabermaukinu ofaná, síðan slatta af niðurskornum jarðarberjum og þekjið með skyrblöndunni. Næst kemur annað lag af fingurkökum, mauki, berjum og svo á endanum skyrblandan. Skreytið með berjum, hvítu súkkulaði og mintu.
Kælið í amk tvær klst og berið fram kalt.
— TIRAMISU — VÍNARBORG — JARÐARBER — FÁSKRÚÐSFJÖRÐUR — LADY FINGERS —
.