Auglýsing
Matarborðið hjá Stanisław August, síðasta konungi Póllands

Varsjá, matarborgin vinalega

Mikið er gaman að „borða sig í gegnum” menningu þjóða. Varsjá í Póllandi er falleg og fjölbreytt. Borgin er snyrtileg og þar ægir saman ólíkri matarmenningu ýmissa landa. Auk þess að snæða þar voru tvær hallir síðasta konungs Póllands skoðaðar og ýmislegt fleira.

Atelier Amaro

Það má nú eiginlega segja að kokkarnir á þessum fína stað toppi allt í frumlegheitum. Djúpsteiktar kanilbrauðstangir voru bornar fram í tréskál með heyi í. Aðalrétturinn var flís af lambi sem var á stærð við karlmannsþumalfingur og með því voru brenninetlublöð. Síðan voru villijarðarber og -sveppir með freyðivínssósu og milliréttur var borinn fram á útsaumshring. Frumlegast af öllu voru frosnar hundasúrur sem búið var að strá yfir vanillusykri (gleymdi að mynda).

Afternoon Tea á Bristol hótelinu stóðst allar væntingar. Að vísu var ráðstefna í húsinu og nokkur erill í salnum sem truflaði þó lítið dásamlega upplifun á þessari aldagömlu síðdegisdrykkjuhefð. Clotted cream minnti meira á gríska jógúrt frekar en rjóma. Auk þess var berjasulta og sítrónusmjör. Samlokurnar voru mjúkar og bragðmiklar og sama að segja um skonsurnar.

Á Munja er balkanskur matur undir áhrifum frá Miðjarðarhafinu. Allar steikur eru kolagrillaðar og staðurinn greinilega vinsæll. Þarna fékk ég Lamb Ćevapi, sem er dæmigerður balkneskur réttur, frekar grófar litlar lambapylsur bornar fram í pítubrauði með söxuðum lauk og chili. Með þessu var chilitómatsósa, hvítlaukssteiktar kartöflur og Šopska salat sem samanstóð af papriku, melónu, gúrku með rifnum osti yfir. Tzatziki sósa var með salatinu.

Steikt súrkál og vambasúpa á Pyzy Flaki Gerące
Steikt súrkál og vambasúpa á Pyzy Flaki Gerące

Pyzy Flaki Gerące. Það getur verið gaman að fara inn á veitingastað „af því bara” Það gerði ég í Praga hverfinu, lítill staður sam bauð upp á þjóðlega rétti. Þrátt fyrir tungumálaörðuleika fékk ég að lokum það sem ég vild; Tvo vinsælustu réttina af pólskum matseðli. Allir réttirnir eru bornir fram í glerkrukkum með servíettu vafða utan um. Fyrri rétturinn var steikt súrkál með beikoni og litlum kjötbitum. Hinn rétturinn reyndist vera vambasúpa, strax við fyrstu skeið áttaði ég mig á vömbunum…. ég hryllti mig og játa hér með á mig matarsóun…

Kókoskarrýskál á Tel Aviv Ubran food
Kókoskarrýskál á Tel Aviv Ubran food

Tel Aviv Ubran food. Mikið lifandis ósköp er ísraelskur matur góður. Á litlum stað var alveg einstaklega bragðgóður og ljúffengur matur. Eiginlega ólýsanlega góður. Kókoskarrýskál með lauksósu, kókosrjóma og karrýi. Með þessu voru bornar fram appelsínulegnar gulrætur og kínóa, linsubaunir og hrísgrjón ásamt salati. Einnig fékk ég Shakshouka hummús með steiktum tómötum, lauk og kóríander.

Nocny matarmarkaðurinn. Lítill en fjölbreyttur markaður og frábær stemning og hressileg tónlist
Þjóðlegir réttir á Stary Dom

Stary Dom. Í Varsjá borðuðum við þjóðlegan mat á Stary Dom. Þarna var meðal annars hægt að fá villisvín í einiberjasósu, hvítkálsböggla með kálfakjötfarsi og pönnusteikt nýru með hvítlaukssósu. Við borðuðum kartöfludumplings, nautatartar sem kokkurinn útbjó við borðið, lambaskanka með grænmeti og kartöflumús og steikta önd með rauðkáli

FLEIRI MATARBORGIR

Auglýsing