Svaraði nokkrum spurningum fyrir Ferðavef Morgunblaðsins
Það má segja að fjölbreytileikinn sé allsráðandi hjá þeim Albert Eiríkssyni og Bergþóri Pálssyni, mikið um að vera og verkefnin ólík.
Blaðamaður sló á þráðinn til Alberts og bað hann að segja frá sumrinu og því sem er framundan.
„Fyrr í sumar dvöldum við í Póllandi, nutum þess að slaka á í Varsjá og borða þar góðan mat. Ferðin var fyrst og fremst afslöppunarfrí” segir Albert og bætti við að hluti af fríinu hafi líka farið í að skipuleggja sumarið og haustið. „Núna vorum við ásamt Braga, syni Bergþórs og hans fjölskyldu, að koma heim eftir nokkra sólríka daga á Spáni. Það gaman að upplifa sólarlandaferð með tveimur orkumiklum börnum sem veita engan afslátt og vilja hafa afa sína með í öllu, allan daginn.“
Albert og Bergþór eru af mörgum vel kunnir fyrir veislur sínar enda hafa þeir mikla unun af matar- og kaffiboðum. „Upphafið var að til okkar hringdi kona úr banka fyrir nokkrum árum og óskaði eftir að koma með deildina sína í mat til okkar. Við urðum eitt spurningarmerki yfir þessari ósk en slógum til. Síðan tökum við af og til á móti hópum og höldum veislur. Núna eru að koma til okkar konur í síðdegiskaffiboð í anda hinna bresku High Tea. Þá eru dregnir fram þriggja hæða kökudiskar og þeir hlaðnir að góðgæti milli þess sem er skálað, sungið saman og farið í leiki,“ segir matar- og kurteisisbloggarinn Albert sem heldur úti einni vinsælustu matarbloggsíðu landsins. Auk þess fá þeir til sín gæsahópa og þá er farið yfir nokkur góð ráð sem nýtast brúðhjónunum þegar kemur að stóra deginum.
Árlega á þjóðhátíðardaginn klæða þeir hjónin sig upp í þjóðbúningana sem Bergþór saumaði og spígspora um miðbæinn. Erlendir ferðamenn eru himinlifandi að sjá „lifandi fólk“ í íslenskum búningum. „Hálsklútinn, sem er hluti af karlbúningnum, á að hnýta á ákveðinn hátt og einhvern veginn náum við þessu aldrei alveg. Það gerist árlega að elskulegar konur í þjóðbúningum koma og bjóðast til að hnýta klútinn svo hann verði fallegri. Okkur til mikillar skemmtunar köllum við þær þjóðbúningalöggur,“ segir Albert hlæjandi og bætir við að tengdafaðir hans, Páll Bergþórsson, hafi slegist í för og fagnað því að þann 17. júní voru liðin 75 ár frá því hann útskrifaðist úr MR. Útskriftin var um morguninn, að henni lokinni var skundað á Þingvöll og lýðveldinu fagnað.
Hvernig skipuleggið þið sumarfríin?
„Í gegnum tíðina hefur engin regla verið á þessu hjá okkur. Í fjölmörg ár rak ég kaffihús og safn um franska sjómenn á Fáskrúðsfirði. Sumarfríin fóru í að taka á móti ferðamönnum og baka rabarbarapæ og fleira með kaffinu. Í fyrra var ég að vinna á sumarhóteli í Breiðdal í góða veðrinu sem var þar. Í sumar ætlum við að láta kylfu ráða kasti og fara í styttri ferðir innanlands. Njóta lífsins með góðu fólki og bjóða okkur í kaffi hingað og þangað og birta uppskriftirnar á matarblogginu. Svo verða eflaust nokkrir veitingastaðir víðsvegar um land heimsóttir og skrifað um þá á bloggið. Svo erum við duglegir að hjóla og hreyfa okkur. Eigum til að vakna fyrir allar aldir og ganga á Esjuna eða hjóla stóran hring um höfuðborgina. Eitt af því sem við ætlum að gera í sumar er að fara um hálendið, sléttum tuttugu árum frá því við fórum síðast. Þá var með okkur systursonur minn á viðkvæmum unglingsaldri. Um miðnætti vorum við við Öskju og keyrðum eftir það norður. Það gleymdist alveg að skipuleggja gistingu svo Bergþór hóf að hringja og athuga hvort ekki væri laust. Í gríni sagði ég við hann að panta fyrir þrjá homma. Þá heyrðist frá unglingnum í aftursætinu með hneykslunartón: NEI!! Tvo homma og einn venjulegan! Síðan hefur þessi „ferðahópur“ verði kallaður Tveir hommar og einn venjulegur.“
Einhverjar hugmyndir til að deila?
„Skipuleggja sumarið vel og með góðum fyrirvara. Leyfa öllum fjölskyldumeðlimum að koma með hugmyndir og vinna svo úr þeim. Það þarf ekki allt að kosta mikið. Oft er samveran það skemmtilegasta, fara í ísbíltúr, fjöruferð, „út í bláinn“ eða nestisferð. Sumarið er stutt og í raun er lífið mjög stutt. Njótum sumarsins og njótum lífsins á meðan hægt er og eins vel og hægt er. Hugsum stórt og látum draumana rætast.”
.
— TVEIR HOMMAR OG EINN VENJULEGUR —
.