
Spaghetti a la Demetz
Í mörg ár skrifaði ég í Gestgjafann, mér til mikillar ánægju. Eitt eftirminnilegasta viðtalið var við Sigurð Demetz Franzson söngvara sem þá stóð á níræðu. Demetz fæddist í Suður-Týról árið 1912. „Munið að sjóða spagettí í 7 mínútur ekki meira og ekki minna.” sagði hann aðspurður um galdurinn við að sjóða pasta. Þegar Demetz flutti til Íslands árið 1955 var hér hvorki til spaghetti né annað pasta og enginn vissi hvað það var – hann lét því senda sér pasta, tómatvörur og ýmislegt annað frá Ítalíu.
🇮🇹
— SPAGHETTI — PASTARÉTTIR — ÍTALÍA — KÚRBÍTUR — GESTGJAFINN — AUSTURRÍKI —
🇮🇹

Spaghetti a la Demetz
1/4 l ólífuolía
1/2 eggaldin
1/2 kúrbítur
2 laukar
250 sveppir
1 græn paprika
1/2 blaðlaukur
1/2 kg tómatar afhýddir og kjarninn tekinn úr
2 dósir tómatar saxaðir
1 dós Cirio tómatsósa
1 dós Cirio tómatpurée
10-15 blöð ferskt saxað basil
2-3 greinar ferskt rósmarín
5-7 Honig súputeningar nauta
chili pipar
salt og pipar
1 kg spaghetti
Hitið olíuna í stórum potti. Rífið eggaldin og kúrbít niður á rifjárni og skerið annað (lauk, sveppi, papriku, blaðlauk) frekar smátt og steikið í olíunni. Bætið við tómötum, tómatsósu, tómatmauki, kryddi og súputeningum. Látið sjóða við vægan hita í 2-3 klukkustundir og hrærið í reglulega.
Sjóðið spaghetti samkvæmt leiðbeiningum á pakkanum. Hellið á sigti og látið renna kalt vatn á í örstutta stund. Setjið í skál.
Setjið spaghetti á djúpan disk, sósu yfir og loks rifinn parmigiano yfir.


🇮🇹
— SPAGHETTI — PASTARÉTTIR — ÍTALÍA — KÚRBÍTUR — GESTGJAFINN — AUSTURRÍKI —
🇮🇹