Páll Bergþórsson – kveðjustund

PÁLL bergþórsson vigdís finnbogadóttir brimnes
Páll Bergþórsson og Vigdís Finnbogadóttir í kaffiboði

Páll Bergþórsson – kveðjustund

Hér eru nokkrar myndir, flestar teknar á ferðalögum okkar Bergþórs og Páls um landið. Minningargrein um Pál er neðst.

PÁLL BERGÞÓRSSON 

.

Bergþór, Páll og Albert á 100 ára afmæli Páls
Ógleymanlegar eru ferðirnar um Ísland þar sem hann jós af fróðleiksbrunni sínum. Alltaf var tölvan meðferðis og eldsnemma á hverjum morgni sat hann niðursokkinn í tvo tíma og samdi veðurspá eftir gögnum utan úr heimi. Veðurspána kallaði Páll tídægru og birti að gamni sínu á fasbókinni eins og hann kaus að kalla Facebook. Unnið í veðurspánni á Þúfnavöllum í Hörgárdal.
Um fermingu spilaði Páll við messur í Gilsbakkakirkju. „þegar ég var 18 ára, var mér fengið það verkefni að kaupa nýtt orgel í Reykjavík fyrir Gilsbakkakirkju. Orgelið keypti ég af Jóni Pálssyni, föðurbróður Páls Ísólfssonar. Það var auðvitað gráupplagt að endurnýja kynnin við hljóðfærið – rúmlega áttatíu árum síðar. Og viti menn, það hljómar bara glimrandi vel ennþá.”
Í Vigur. Bergþór, Gísli, Páll og Albert á pallinum við kaffihúsið sem áður var fjós eyjaskeggja.
Með Hauki Vagnssyni á Hesteyri
Með Bergþóri við Tónlistarskólann á Ísafirði

 

Í berjamó í Önundarfirði
Í kaffi hjá Diddú
Bergþór Kristleifsson flaug með móðurbróður sinn yfir æskustöðvarnar í Borgarfirði.
Páll rifjaði upp í viðtali við Sigurlaugu Margréti hvernig veðrið var fyrsta útsendingardag Útvarpsins árið 1930.
Alla tíð stundaði Páll rannsóknir og af enn meiri þunga eftir að hann hætti störfum á Veðurstofunni. Allra síðustu árin tók hann sér fyrir hendur að skýra 70 ára náttúrulegar hitasveiflur sem hafa verið við lýði í árhundruð eða þúsundir ára. Þannig vildi hann geta spáð fyrir um hita á jörðinni áratugi fram í tímann. Í þessari vinnu bar hann saman línurit yfir hlýnun síðustu 100 ár og mannfjölgunina úr 1 milljarði í 8 milljarða á þessum 100 árum. Línuritin voru eins. Þannig komst hann að þeirri niðurstöðu að hlýnunin væri fyrst og fremst vegna mannfjölgunarinnar. Aftur á móti var hann ekki svartsýnn, þar sem hann taldi að fjölgunin myndi ná jafnvægi á næstu áratugum, en þó ekki það hratt að við þyrftum ekki að grípa til aðgerða. Þar að auki ætti hin náttúrulega sveifla í hita að vera aðeins niður á við næstu 35 árin.
Í þjóðlegu kaffi hjá Guðfinnu og Jónu Símoníu á Ísafirði
Jólaglaðningur. Í mörg ár hefur Páll komið með okkur á aðfangadagsmorgun til að afhenda vinum og kunningjum lítinn heimagerðan jólaglaðning. Á hverju ári samdi hann nýja vísu með jólakveðju og upplýsingum um innihaldið. Skemmtilegast var að heyra hann lesa vísuna á hverjum stað. Hvarvetna var Páll aufúsugestur hvort sem var í eigin persónu eða á skjánum, enda háttvís maður svo af bar, fyrir utan leiftrandi gáfurnar. Hann kunni þá list að sýna öllum virðingu og áhuga.
Jólavísan lesin fyrir Signýju Sæm.

 

Á Kaffi Flóru á sólríkum sumardegi á 98 ára afmælinu
Niðursokkinn í grúski
Stórhöfði í Vestmannaeyjum
97 ára í Flatey á Breiðafirði
Vík í Mýrdal
Í Reynisfjöru
Sigling í kringum Heimaey
Á Erpsstöðum, Páll með Þorgrími sem sýndi honum starfsemina, m.a. lausagöngufjósið sem Páll var uppnuminn af.

Páll Bergþórsson – kveðjustund

Brennandi áhugi, nýjungagirni, síkvikur hugur, frásagnargáfa, vandvirkni og þrautseigja eru orð sem koma upp í hugann við fráfall tengdaföður míns.

Páll hikaði ekki við að hugsa fræðin upp á nýtt á mörgum sviðum, þó að ekki hafi alltaf þótt vit í því til að byrja með, enda er í eðli mannskepnunnar að vera fastheldin á hlutina eins og þeir hafa alltaf verið. Þótt stormurinn gæti verið í fangið, stóð Páll alltaf keikur með sínum vel ígrunduðu rannsóknum og tilgátum út frá þeim. En um leið var hann fyrst og fremst mannvinur og friðarsinni með stórt hjarta og ríka réttlætiskennd. 

Í mörg ár hefur Páll komið með okkur á aðfangadagsmorgun til að afhenda vinum og kunningjum lítinn heimagerðan jólaglaðning. Á hverju ári samdi hann nýja vísu með jólakveðju og upplýsingum um innihaldið. Skemmtilegast var að heyra hann lesa vísuna á hverjum stað. Hvarvetna var Páll aufúsugestur hvort sem var í eigin persónu eða á skjánum, enda háttvís maður svo af bar, fyrir utan leiftrandi gáfurnar. Hann kunni þá list að sýna öllum virðingu og áhuga.

Ógleymanlegar eru ferðirnar um Ísland þar sem hann jós af fróðleiksbrunni sínum. Alltaf var tölvan meðferðis og eldsnemma á hverjum morgni sat hann niðursokkinn í tvo tíma og samdi veðurspá eftir gögnum utan úr heimi. Veðurspána kallaði Páll tídægru og birti að gamni sínu á fasbókinni eins og hann kaus að kalla Facebook.  

Sumarið 2020 gerðumst við Bergþór og Páll ferðabloggarar, fórum vítt og breitt um landið og þá voru ómissandi fróðleiksmolar hans um landa- og jarðfræði,  búskaparhætti og veðurfar. Að auki virtist hann kunna hverja einustu lausavísu sem hann hafði heyrt um ævina. Fjölbreyttir matsölustaðir voru prófaðir og alltaf var Páll tilbúinn að smakka eitthvað sem hann hafði ekki komist í kynni við áður, hvort sem það var indverskur matur, frumlegar pitsur eða annað. Eftir að hafa borðað á marokkóskum stað á Siglufirði fór hann í eldhúsið og sagði kokkinum að þetta væri besti matur sem hann hefði á allri sinni ævi smakkað. 

 Við sem erum úr sveit vitum að veðrið skiptir miklu máli. Í mínum uppvexti var sem heilög stund þegar Páll sagði veðurfréttir í Sjónvarpinu. Hann hafði lag á að tengja veðrið við lífið í landinu, á auðugu og fallegu mannamáli, þannig að á var hlustað. Alltaf elegant með slaufuna og bylgjurnar fínu í hárinu.

 Með þakklæti í huga er komið að kveðjustund, aldarfjórðungs einstaklega ánægjuleg kynni. Hlýja Páls, góðvild, brennandi áhugi á því sem hann tók sér fyrir hendur verður okkur samferðafólkinu til eftirbreytni. Þannig á að lifa lífinu, –  lifandi -, af brennandi áhuga.  

 

Yndi á ævivegi
eru vinafundir.
Því er vert að þakka
þessar góðu stundir,
sjá á sælum degi
sól í heiði skína,
fylla lífið fegurð,
færa blessun sína.

Undur er að lifa,
eiga daga bjarta,
hafa verk að vinna,
von og gleði í hjarta,
ljóð og söng í sinni,
sumardýrð og ljóma,
ævilangan unað,
allra hylli og sóma.
P.B.

Blessuð sé minning Páls Bergþórssonar.

Aðfangadagur á Brimnesi 2021
Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.