Hefðir veita okkur öryggistilfinningu

Hefðir veita öryggistilfinningu Jólablað Fréttablaðsins 2019 albert eiríksson Bergþór jólahefðir jólin jólamatur jólabakstur jólaskraut jólaseríur
Viðtal um jólahefðir, mat, bakstur og fleira í Jólablaði Fréttablaðsins

Hefðir veita okkur ákveðna öryggistilfinningu

Albert Eiríksson þekkja margir Íslendingar en hann heldur úti einni vinsælustu matarbloggsíðu landsins, alberteldar.is. Albert er mikið jólabarn og segist hreinlega þurfa að hemja sig í aðdraganda jólanna. 

„Líf mitt snýst að mestu leyti um mat og samskipti fólks,“ segir Albert en auk uppskrifta hefur hann tekið saman ýmsa pistla um borðsiði og kurteisi á síðunni sinni.

Jólin samofin hefðum

„Í hugum margra snúast jólin um hefðir, þar sem allt er í föstum skorðum, eins konar akkeri í rótleysi hversdagsins. Í minni barnæsku var þetta svo sterkt. Þegar þögnin var í útvarpinu, allt tilbúið, búið að leggja á borðið á meðan fólk hlustaði í andakt á þögnina til þess að heyra svo jólaklukkurnar klingja, búið að kveikja á kertunum. Þá varð heilagt.“

Albert segir að þegar hann kynntist Bergþóri hafi jólahaldið tekið breytingum. „Til að byrja með fannst mér mjög skrýtið að hann var oftast að syngja klukkan sex á aðfangadag. Ég var bara heima að brúna kartöflur á meðan hann söng og þá var kannski ekki borðað fyrr en milli sjö og átta. Nú slaka ég bara á og kem með í kirkjuna. Allt venst og þó að jólin séu ekki alltaf eins eða í hvaða röð hlutirnir eru gerðir, er ekki hundrað í hættunni.“

Jólin séu í dag að vissu leyti afslappaðri. „Ég skil mjög vel að sumir vilji halda í hefðir og séu tregir til að breyta til, en mér finnst að við séum aðeins farin að slaka á. Margir ferðast um jól og áramót og það er ekki eins fastmælum bundið hvað á að vera í matinn, þannig að við sveigjum hefðirnir svolítið til, þó að við hendum þeim kannski ekki öllum út um gluggann.“

Breyttir tímar

Albert nefnir jólahreingerningu og jólaföstu sem dæmi um hefðir sem séu að vissu leyti á undanhaldi. „Það er minna tilstand núna fyrir jólin en var. Þetta var öðruvísi þegar allt var bakað og eldað inni á heimilinum. Þá þurfti virkilega að þrífa allt einu sinni á ári og var kjörið að gera það fyrir jólin. En núna eru aðrir tímar, sumir vilja alveg eins taka bara til og gera góða hreingerningu að vori.“

„Hún mamma er heima að skúra, baka og bóna, og bakar sand af fínu tertunum, segir í Jólin koma eftir Ómar Ragnarsson, en sú stemning hefur heldur betur breyst. Nú leggja margir áherslu á að njóta þess að vera til á aðventu, eða „hygge sig“, eins og danskurinn segir, fara á tónleika, hitta skemmtilegt fólk, borða góðan mat með jólaívafi, enda eru jólamatseðlar í boði víða á veitingastöðum, en hlaðborðin kannski ekki í eins föstum skorðum og þau voru.“

Aðspurður hvort það sé eitthvað sem hann sakni sem er á undanhaldi, segist hann ekki muna eftir því í fljótu bragði. „Með breyttri samfélagsgerð er eðlilegt að hlutirnir taki á sig nýja mynd.  Nú eru ekki bakaðar margar tegundir eins og var og margir baka alls ekki neitt. Hins vegar er auðvelt að kaupa tilbúið deig í rúllum, skera niður nokkrar kökur og skella í ofninn, það gefur mikla stemningu. Sjálfum finnst mér ómissandi að hafa bökunarilm í lofti, heyra jólakveðjurnar á Rás 1 á Þorláksmessu og að fara í sparifötin á jólunum og alla jóladagana er hefð sem við höldum enn í.“

Þegar Albert er spurður að því hvort hann sé mikið jólabarn þá stendur ekki á svörum. „Ö já, mjög! Ég þarf að hemja mig til að vera ekki vandræðalega snemma að setja upp seríur og annað.“ Hann byrjar snemma að skreyta og gefur sér tíma. „Ég verð byrjaður að setja upp seríur svona upp úr miðjum nóvember. Þá setur maður á svalirnar og er svo að tína þetta smátt og smátt fram. Ég held því samt við að skreyta ekki tréð fyrr en á seinustu stundu. Það má ekki vera búið að splæsa öllum hátíðartrompunum þegar jólin loksins koma!“

Jólakortin

Albert segir jólakortin eitt dæmi um það hvernig tímarnir hafi breyst. „Með samfélagsmiðlum hefur jólakortum í pósti fækkað. Ég sakna þeirra að vissu leyti, þau voru gulls ígildi, meðan líf fólks var ekki eins og opin bók á netinu. Nú fylgist fólk með allt árið á facebook og margir eru á ferð og flugi, svo að það er kannski eðlilegt að jólakortin renni sitt skeið. Við erum reyndar farnir að senda jólakveðju í útvarpið. Samt hef ég á tilfinningunni að jólakort eigi eftir að blómstra á ný, þegar nostalgían kemur yfir okkur. Það er hlýlegra að lesa handskrifaðar jólaóskir en rafræn skilaboð.“ 

Albert minnist jóla úr bernsku með mikilli hlýju. „Þetta var gert í ákveðinni röð heima í sveitinni, borðað klukkan sex, svo fóru mamma og pabbi í fjósið og við krakkarnir gengum frá á meðan. Þegar því var lokið voru jólakortin lesin og eftir það voru pakkarnir teknir upp.“

Hann rifjar upp þær stundir sem fóru í að lesa kortin og segir að nú sé hann, með árunum, farinn að taka upp hætti foreldra sinna. „Manni fannst að lestrinum ætlaði aldrei að ljúka og með hverri mínútu varð maður óþreyjufyllri að fá að taka upp pakkana. Það bárust alltaf svo mörg kort, svo þurfti að ræða hvert og eitt einasta kort. En núna er maður líka farinn að taka sér góðan tíma til að njóta hvers korts. Svona fer margt í hringi.“ 

Jólaglaðningur og kveðskapur

Undanfarin ár hafa þeir félagar skapað sér þá hefð að fara að morgni aðfangadags, ásamt föður Bergþórs, og kasta kveðju á vini og kunningja. „Þetta kemur svolítið í staðinn fyrir jólakort og við látum fylgja pínulítinn „jólaglaðning“. Oft er þetta eitthvað matarkyns, eða eitthvað sem eyðist. Glaðningnum fylgir alltaf útskýring á innihaldinu og jólakveðja í bundnu máli frá Páli. Okkur er víðast hvar boðið inn og þá tekur maður þátt í undirbúningnum og eftirvæntingunni út um borg og bý og þetta er óskaplega skemmtilegt.“

JÓLINJÓLAGLAÐNINGURHEFÐIRPÁLL BERGÞÓRSSON

.

Fyrir tveimur árum gáfum við vanilluextrakt ásamt súkkulaði og af því tilefni orti Páll eftirfarandi vísu:

Frá póli að pól
um byggðir og ból
berist með þessu blaði
vonir um sól
og vanillujól
og sælkerasúkkulaði.

Jólamaturinn óráðinn

Albert segir óráðið hvað verði í matinn þessi jólin. „Það kæmi samt ekki á óvart ef það væri hægeldaður lambahryggur, við höfum oft haft hann og verið með hann í ofninum frá því um hádegi á mjög lágum hita. Í fyrra var önd og þar áður var hnetusteik. Tengdapabbi, Páll Bergþórsson, er oft hjá okkur á jólunum. Hann er nú bara 96 ára og er reyndar að velta fyrir sér að gerast grænmetisæta. Hann er svo mikill umhverfissinni og segir að með hinni gríðarlegu mannfjölgun gangi ekki til lengdar að rækta öll þessi dýr fyrir okkur sjálf til að borða, til þess muni bæði jarðnæði og vatn skorta áður en við vitum af og þess vegna þurfum við að hugsa hlutina upp á nýtt. Það er reyndar mjög hátíðlegt að útbúa góða hnetusteik, Wellington steik með Portobello sveppum í stað kjöts, eða annað.“

Albert segir minna fara fyrir bakstrinum undanfarin ár. „Oftast eru þetta sörur og kornflekskökur, kannski einhverjar smjörkökur. Það er eins hjá okkur og fleirum að núna eru þetta bara 3-4 tegundir og bara lítið.“ Hann mælir líka með því að eiga deig inni í ísskáp sem hægt sé að grípa í fyrir gesti og gangandi.

Eitt af því sem hefur breyst í gegnum árin er áherslan á hollustu og segir Albert að það rati inn í jólabaksturinn, enda gamlar uppskriftir oftar en ekki stútfullar af sykri. „Við minnkum oft sykurmagnið, stundum um allt að helming. Þetta er oft svo mikið óhóf af sykri og kökur verða stundum bara betri við það að minnka sykurinn.“

Viðtal um jólahefðir, mat, bakstur og fleira í Jólablaði Fréttablaðsins 2019

Eplaterta með söxuðum möndlum

.

Auglýsing

Meira úr sama flokki

Vöfflur – klassísk uppskrift úr bókinni Við matreiðum

Vöfflur. Fátt er dásamlegra en ilmur af nýbökuðum vöfflum. Það er einhver óútskýrð hlýja sem fylgir þeim. Hér er uppskrif úr hinni ágætu bók Við matreiðum, bók sem ég eignaðist fyrir 35 árum og fletti reglulega upp í. Við matreiðum er hin fínasta bók, hún kom fyrst út árið 1976 og nýlega kom sjötta útgáfan út.

Peruterta, þessi gamla góða

20160830_152036

Peruterta. Í minningunni voru perutertur í öllum barnaafmælum og flestum fermingarveislum í mínu ungdæmi. Botnarnar voru mjúkir og gegnblautir. Þegar ég sá á fasbókinni að Borghildur Jóna var að baka eina slíka fyrir afmæli sonar síns, fékk ég fortíðarþráhyggjukast og bað hana um mynd og uppskrift. Ég bara stóðst ekki mátið.

Hjónabandssæla

Hjónabandssæla

Mjúk og góð hjónabandssæla er góð með kaffinu. Stundum verða hjónabandssælur seigar, kannski vegna þess að þær eru bakaðar of lengi. En eflaust líkar einhverjum að hafa þær seigar.